Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, segir að þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagsmálum Íslands séu um margt „kjöraðstæður“ fyrir losun fjármagnshafta. Þetta kom fram á fundi í Seðlabanka Íslands í morgun þar sem nýjasta útgáfa Fjármálastöðugleika var kynnt. „Það er heldur ekki víst að þessar aðstæður vari að eilífu,“ sagði Sigríður. Verðbólga hefur farið lækkandi undanfarin misseri og mælist nú 1,8 prósent á ársgrundvelli, en verðbólgumarkmiðið lögum samkvæmt er 2,5 prósent. Þessar stöðugt betri ytri aðstæður í hagkerfinu hjálpuðu til við að skapa aðstæður til að losa um höft.
Í ritinu kemur þó fram að mesti áhættuþátturinn geti verið sá að vantraust verði viðvarandi á losunarferlinu sem geti leitt til útflæðis á peningum úr kerfinu, með tilheyrandi gengissigi og verðbólguáhrifum.
Í ritinu kemur fram að staða efnahagsmála hafi haldið áfram að styrkjast, heilt á litið, á þessu ári. „Efnahagsástand er að mörgu leyti gott um þessar mundir. Hagvöxtur þessi misserin er með því mesta sem gerist á meðal þróaðra ríkja og slakinn í þjóðarbúskapnum er óðum að hverfa,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri, í upphafi inngangs í ritinu. Þó sé fyrir hendi greiðslujafnaðarvandi í þjóðarbúinu sem þurfi að leysa, og að því sé unnið þessi misserin. Þar á meðal er að lengja í skuldabréfi Landsbankans gagnvart þrotabúi gamla bankans, og taka á málum slitabúa föllnu bankanna þriggja með þeim hætti að það ógni ekki fjármálastöðugleika landsins, einkum gengi krónunnar.
Í kynningu sinni sagði Sigríður að viðskiptabankarnir á Íslandi stæðu traustum fótum, væru vel fjármagnaðir og með skýrari rekstrargrunn en undanfarin ár. Þó bæri enn á því að uppgjör lituðust af ýmsum tímabundnum breytingum á efnahagnum, s.s. uppfærslu á eignum og öðrum óreglulegum liðum.
Í Fjármálastöðugleika kemur fram að heildar eigið fé viðskiptabankanna þriggja, Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankans, hafi numið 568 milljörðum króna um mitt þetta ár. Eiginfjárhlutfall bankanna er auk þess hátt í alþjóðlegum samanburði.
Viðskiptabankarnir | Eiginfjárhlutfall |
Arion banki 2013 | 23,6 |
Íslandsbanki 2013 | 28,4 |
Landsbankinn 2013 | 26,7 |
MP banki 2013 | 14,2 |
Arion banki Júní 2014 | 25,6 |
Íslandsbanki Júní 2014 | 29,3 |
Landsbankinn Júní 2014 | 26,8 |
MP banki Júní 2014 | 15,1 |