Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, er á leið í leyfi frá störfum sínum í Seðlabankanum frá 1. ágúst næstkomandi til 15. desember. Hún er að fara til starfa við Yale-háskólann í Bandaríkjunum, en Sigríður starfaði sem kennari og aðstoðarmaður deildarforseta við hagfræðideild skólans frá 2007 og þar til að hún var ráðin til Seðlabankans í október 2011.
Sigríður var á sínum tíma skipuð í rannsóknarnefnd Alþingis ásamt Páli Hreinssyni og Tryggva Gunnarssyni. Sú nefnd skilaði skýrslu í apríl 2010.
Hefur unnið að greiningu á losun hafta
Fjármálastöðugleikasvið Seðlabankans hefur meðal annars unnið að greiningu á fjármálastöðugleika og fjármagnshöftum og Sigríður hefur haldið erindi þar sem hún hefur farið yfir helstu stærðir í þeim efnum. Nú síðast hélt hún erindi á hádegisfundi í Iðnó á fundi sem haldin var af stjórnarandstöðuflokkunum um losun fjármagnshafta.
Það erindi má lesa í heild sinni hér.
Í október síðastliðnum var haldin fundur í Seðlabanknum þar sem farið var yfir nýjustu útgáfu Fjármálastöðugleika. Þar sagði Sigríður að þær aðstæður sem þá væru uppi í efnahagsmálum Íslands væru um margt „kjöraðstæður“ fyrir losun fjármagnshafta. „Það er heldur ekki víst að þessar aðstæður vari að eilífu,“ sagði Sigríður.