Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, hugsaði aldrei um það að hætta þegar umræða um þátt hennar í lekamálinu svokallaða stóð sem hæst. Hún segir að búið sé að fara í gegnum málið af ýmsum yfirvöldum og meta aðkomu hennar að því. Þá hafi Ólöf Nordal innanríkisráðherra lýst yfir trausti á hana. „Þannig að það er kannski fátt sem eftir á að segja í þessu máli.“ Þetta kemur fram í viðtali við Sigríði Björk í Fréttablaðinu í dag.
Hún segist hafa hætt að taka þátt í umræðunni um lekamálið á einhverjum tímapunkti til að hafa vinnufrið.„Fókusinn minn fór þangað, inn í mín verkefni og ég lét eftirlitsstofnunum eftir að sinna sínu hlutverki, sem þær gerðu. Ég gat lítið annað gert.“
Sigríður Björk segist aðspurð að sér hafi ekki þótt fjölmiðlaumfjöllun um sig ósanngjörn. Hún hafi skilning á því að fjölmiðlafólk og aðrir voru að sinna sinni vinnu. Síðastliðið ár hafi hins vegar verið mjög lærdómsríkt. Hún verði að segja það.
Persónuvernd sagði Sigríði hafa brotið gegn lögum
Í lok febrúar síðastliðinn birti Persónuvernd úrskurð þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að Sigríður Björk hefði brotið lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga með því að skrá ekki í málaskrá embættisins þegar hún sendi Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, greinargerð um hælisleitandann Tony Omos við upphaf lekamálsins svokallaða.
Þar að auki hafði Sigríður Björk ekki heimild til að senda greinargerðina en henni bar, sem ábyrgðaraðili á vinnslu persónuupplýsinganna, að kanna á hvaða lagagrundvelli beiðni Gísla Freys um greinargerðina var sett fram. Þá er sömuleiðis látið að því liggja í úrskurði Persónuverndar að Sigríður Björk hafi brotið gegn lögreglulögum þar sem kveðið er á um þagnarskyldu lögreglu, svo viðkvæmar hafi persónuupplýsingarnar um Tony Omos verið.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra greindi frá því nokkrum dögum síðar að ráðuneyti hennar myndi ekki áminna Sigríði Björk vegna úrskurðar Persónuverndar. Ólöf sagði enn fremur að málið myndi ekki hafa nein frekari eftirmál. Hún hafi metið það svo að Sigríður Björk hefði afhent umrædd gögn í góðri trú.
Sigríður Björk segir í viðtalinu við Fréttablaðið í dag að hún hafi gefið ráðuneyti sínu upplýsingar sólarhring eftir að lekamálið kom upp.
Segir lögreglu hafa skoðað samskipti sín við Gísla Frey
Sú spurning sem helst hefur verið ósvöruð í þessum anga lekamálsins er af hverju Sigríður Björk lét ekki rannsakendur lekamálsins vita að Gísli Freyr hefði verið í samskiptum við hana þessa sömu daga og lekinn á minnisblaði um Tony Omos og fleiri átti sér stað til að óska eftir upplýsingum um sama fólk. Sigríður Björk svarar þeirri spurningu í viðtali við Morgunblaðið í mars svona: „Því er til að svara að samskipti mín við aðstoðarmanninn fóru fram eftir að hann hafði lekið upplýsingum til fjölmiðla. Jafnframt að öll samskipti aðstoðarmanna og tölvupóstsendingar voru skoðuð af lögreglunni og allar upplýsingar um mín samskipti lágu þar fyrir.“