Sigþór Jónsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa hf. Hann var síðast framkvæmdastjóri Straums sjóða hf. en hann hóf störf hjá Straumi 1. ágúst í fyrra. Þar áður var hann framkvæmdastjóri Landsbréfa frá árinu 2012 þegar hann hætti sem forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá Stefni hf., sjóðstýringarfyrirtæki í eigu Arion banka.
Íslensk verðbréf er sérhæft eignastýringarfyrirtæki. Félagið var stofnað árið 1987 og starfsmenn fyrirtækisins eru 20 talsins. Félagið er með yfir 100 milljarða króna í eignastýringu og er með skrifstofu á Akureyri og í Reykjavík
Straumur fjárfestingabanki eignaðist meirihluta í Íslenskum verðbréfum í lok síðasta árs. Fyrr í þessari viku var svo tilkynnt um að samkomulag hefði náðst milli MP banka og Straums um samruna bankanna með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakannanam samþykki hluthafafunda og eftirlitsaðila.
Í tilkynningu frá Íslenskum verðbréfum vegna ráðningar Sigþórs segir m.a. : "Samhliða ráðningu Sigþórs hefur verið gengið frá því að Sveinn Torfi Pálsson starfi við hlið hans sem aðstoðarframkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa hf. Sveinn Torfi hefur starfað hjá félaginu frá árinu 1993 og gegnt starfi framkvæmdastjóra frá því í september 2013."
Haft er eftir Sigþóri að „starfsemi Íslenskra verðbréfa hefur verið afar farsæl og í föstum skorðum á undanförnum árum. Á því er engin breyting fyrirhuguð enda þótt með ráðningu minni sé jafnframt horft til nýrra verkefna og sameiginlegrar framtíðarsýnar Íslenskra verðbréfa, starfsmanna og hluthafa þess. Það er ánægjulegt að vera kominn til félagsins og ég hlakka til samstarfsins við það góða starfsfólk og þá traustu viðskiptavini sem eru innan veggja Íslenskra verðbréfa."