"Sennilega er andrúmsloftið á Íslandi þannig að það gagnist mér ekkert að barma mér í fjölmiðlum yfir því dómsmorði sem ég tel að þar hafi verið framið. Ég verð samt að trúa því að sagan muni sjá um að þessi dómur fái verðug eftirmæli." Þetta er meðal þess sem kemur fram í aðsendri grein í Fréttablaðinu eftir Sigurð Einarsson, fyrrum stjórnarformann Kaupþings, sem í síðustu viku var dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Hæstarétti fyrir sinn hlut í Al Thani-málinu svokallaða.
Þar gerir Sigurður athugasemdir við að Hæstiréttur hafi lítið sem ekkert fjallað um héraðsdóminn sem sakborningar í málinu áfrýjuðu til hans, heldur hafi Hæstiréttur komið með nýjan dóm sem hafi haft litla tengingu við héraðsdóminn. "Ég fæ ekki betur séð en að Hæstiréttur geri sér lítið fyrir og afnemi regluna um að í landinu séu tvö dómstig og komi í veg fyrir að ég geti áfrýjað niðurstöðu sem ég er ósáttur við."
Segir hlutdeild hafa byggt á athafnarleysi
Sigurður segir að hann hafi verið ákærður sem aðalmaður í umboðssvikum í málinu en að Hæstiréttur hafi fallist á að hann hafi ekki haft það umboð sem ákæruvaldið taldi hann hafa svikið gegn. "Því var ég sýknaður af umboðssvikum. Þetta hjálpaði mér lítið því Hæstiréttur dæmdi mig í staðinn fyrir annað, þ.e. hlutdeild í umboðssvikum! Ég hafði ekki verið ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum og varðist því ekki slíku broti frekar en öðru sem ég var ekki ákærður fyrir.
Mér er það ljóst að heimilt er að dæma þann sem ákærður er sem aðalmaður fyrir hlutdeild í brotinu enda verði vörnum ekki áfátt. Hvernig það geti átt við í mínu tilviki er mér óskiljanlegt þar sem Hæstiréttur virðist líta svo á að hlutdeild mín í brotinu hafi byggst á athafnaleysi. Ég sé að Jón Þór Ólason, lektor í lögfræði við HÍ, telur í samtali við Morgunblaðið að hér sé um nýja túlkun á umboðssvikaákvæðinu að ræða."
Engar sannanir um sekt
Sigurður segir að honum hafi alltaf skilist að sakborningar eigi að njóta vafans í sakamálum. Það eigi ekki við í dómi Hæstaréttar að hans mati. " Sama er hvað ég leita í dómnum, ég finn ekki að vísað sé til neinna sannana um mína sekt. Hæstiréttur kýs að líta algerlega fram hjá framburði þeirra vitna sem komu fyrir dóm sem öll báru á sama veg um að aðkoma mín að þessu máli hafi engin verið. Þannig að jafnvel þótt lög kunni að hafa verið brotin í þessu máli, sem ég held að hafi ekki verið, þá var aðkoma mín engin.
Þessu skautar Hæstiréttur fram hjá og segir að "? ?hafið sé yfir allan skynsamlegan vafa að ákærða Sigurði hafi verið kunn? ". Þetta er sagt án þess að vísa í sönnunargögn. Eini vitnisburðurinn sem vísað er til er vitnisburður Hreiðars Más. Hann var aftur á móti ekki spurður út í vitneskju mína um lán vegna kaupa hlutabréfanna heldur vitneskju mína um annað lán sem ég var ekki ákærður fyrir. Það má svo velta því fyrir sér hvort það teljist sönnun um sekt ef Hreiðar hefði sagt mig hafa fulla vitneskju um uppbyggingu viðskiptanna þegar ég hef ítrekað haldið því fram að svo hafi ekki verið. Eftir því sem mér skilst þá hafa dómar Hæstaréttar hingað til verið á þann máta að við slíkar aðstæður sé sekt ekki sönnuð."
Að mati Sigurðar eru þetta meinbugir á dómi Hæstaréttar en honum finnst fáir sem fjalli um dóminn á Íslandi velta þessum þáttum fyrir sér og það er að hans mati alvarlegt. "Mér finnst umræðan sem fyrr einkennast af því að þessir menn, sem vissulega voru flestir bankamenn, eigi allt vont skilið."
Ólafur telur dóminn fyrirfram ákveðinn
Ólafur Ólafsson, sem var í síðustu viku dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir sinn hlut í Al Thani-málinu, ásakaði íslenska stjórnmálamenn um að gera bankageirann að blóraböggli fyrir þeirra eigin mistökum í samtali við Reuters fréttastofuna í gær. „Ég held að dómararnir hafi fyrst ákveðið hver útkoman ætti að vera svo svo skrifað dóminn".
„Ísland er mjög lítið land...Veggirnir á milli stjórnmálamanna og embættismanna eru þunnir. Stjórnmálamennirnir ákváðu að setja allan fókus á bankageirann, en að rannsaka ekki það sem aflaga fór í efnahagskerfinu, sem er á þeirra ábyrgð," sagði Ólafur.
Aðrir sakborningar sem hlutu dóm í málinu, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, sem fékk fimm og hálfs árs dóm, og Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, sem fékk fjögurra og hálfs árs dóm, hafa ekki tjáð sig opinberlega um niðurstöðuna síðan að hún féll fyrir sex dögum síðan.