Sigurður Erlingsson, sem verið hefur forstjóri Íbúðalánasjóðs frá árinu 2010, hefur óskað eftir því að láta af störfum. Hann mun láta samstundis af störfum en verða tímabundnum forstjóra, Gunnhildi Gunnarsdóttur, til ráðgjafar. Gunnhildur, sem verið hefur staðgengill forstjóra, mun gegna starfinu þar til að nýr forstjóri verður ráðinn. Starfið verður auglýst laust til umsóknar á næstunni.
Í tilkynningu til Kauphallar vegna þessa kemur fram að nýr forstjóri muni fá það hlutverk að leiða breytingar sem kunna að verða á starfsemi sjóðsins við breytta skipan húsnæðismála.
Þar er haft eftir Sigurði að sjóðurinn hafi staðið frammi fyrir miklum áskorunum þegar hann tók við starfinu. "Með sterkari innviðum sjóðsins og öflugu stjórnendateymi hefur sjóðurinn náð góðum tökum á þessum viðfangsefnum. Ég er stoltur af því að meginmarkmið í stefnu- og starfsáætlun Íbúðalánasjóðs hafi náðst.“
Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttur, stjórnarformaður Íbúðalánasjóðs, segir að stjórnin þakki Sigurði fyrir mikilvægt framlag á umliðnum árum.
Tapaði 58 milljörðum króna eftir hrunið
Íbúðalánasjóður skilaði hagnaði upp á 3,2 milljarða króna á síðasta ári og er það í fyrsta sinn sem hann skilar slíkum frá árinu 2008. Í millitíðinni hefur sjóðurinn tapað tæpum 58 milljörðum króna og ríkissjóður hefur þurft að leggja honum til 53,5 milljarða króna frá árinu 2009 til að halda sjóðnum gangandi.
Þorri þess hagnaðar sem Íbúðalánasjóður sýnir fyrir árið 2014 er komin til vegna breytinga á virðisrýrnun útlána sjóðsins. Þ.e. innheimtanleiki lána hefur aukist um 2,5 milljarða króna. Þá skiptir hlutdeild sjóðsins í hagnaði dótturfélagsins Kletts, sem er leigufélag utan um hluta þeirra íbúða sem Íbúðalánasjóður hefur leyst til sín, líka töluverðu máli.
Ársreikningur sjóðsins sýndi að útlán hans hafi lækkað um 40,4 milljarða króna á síðasta ári. Hann er samt sem áður enn langstærsti íbúðalánveitandi á Íslandi með 43 prósent markaðshlutdeild. Hún hefur hins vegar minnkað hratt á undanförnum árum. Hún var talin vera á bilinu 55 til 60 prósent árið 2011.
Ný útlán sjóðsins voru líka mjög lág. Alls námu þau 6,6 milljörðum króna á síðasta ári og samkvæmt mánaðarskýrslum sjóðsins var umfang lána til einstaklinga, venjubundin húsnæðislán, um 4,7 milljarðar króna. Til samanburðar jukust íbúðalán Landsbankans um 39 milljarða króna á síðasta ári, um nánast sömu krónutölu og heildarútlán íbúðalánasjóðs drógust saman.
Skuldaniðurfellingar kosta sjóðinn og ríkissjóð milljarða
Í árskýrslunni var einnig fjallað mjög ítarlega um áhrif skuldaniðurfellingaúrræða stjórnvalda, sem nefnast einu nafni Leiðréttingin, á stöðu sjóðsins. Þar kemur fram að niðurgreiðslur ríkissjóðs á völdum verðtryggðum húsnæðislánum (600 til 900 milljóna króna tap á ári) og notkun fólks á séreignarsparnaði til að greiða niður höfuðstól íbúðarlána (300 til 450 milljóna króna tap á ári) valdi því að sjóðurinn tapi um 900 til 1.350 milljónum króna á ári vegna vaxtataps. Um sé að ræða helming vaxtatekna sjóðsins, sem er að fullu í eigu íslenska ríkisins. Þar segir að „tjón vegna úrræða stjórnvalda mun að óbreyttu hafa mikil áhrif á grunnafkomu sjóðsins og valda því að sjóðurinn verður hér eftir rekinn með tapi sem á endanum fellur á ríkissjóð. Ljóst er að slík umgjörð rekstrar kann að valda því að ýmsir aðrir áhættuþættir sjóðsins, svo sem uppgreiðsluvandi, geta magnast upp og vafi kann að leika á rekstrarhæfi sjóðsins. Við þessar aðstæður er það markmið stjórnenda að lágmarka tjón sjóðsins.“.
Þar segir einnig að „í bréfi velferðarráðuneytisins dagsettu 19. desember 2014 kemur fram að það sé skilningur bæði félags- og húsnæðismálaráðherra og fjármálaráðherra að Íbúðalánasjóði verði bætt þau neikvæðu áhrif sem kunna að verða á afkomu sjóðsins vegna höfuðstólslækkunar húsnæðisskulda[…] og segir jafnframt að sú afstaða hafi einnig komið fram á fundi fulltrúa Íbúðalánasjóðs þann 18. desember 2014 með embættismönnum ráðuneytanna og forsætisráðuneytisins. Ekki liggur fyrir með hvaða hætti tjón sjóðsins verður bætt og eiga stjórnvöld í samráði við sjóðinn eftir að útfæra það nánar. Ekki er færð krafa á ríkissjóð vegna þessa tjóns.“
Óvissa um framtíðarhlutverk
Það ríkir hins vegar gríðarleg óvissa um hvert framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs sé. Í skýrslu stjórnar sem fylgdi ársskýrslunni segir að þetta óvissuástand hafi staðið yfir „frá þeim tíma er félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála 9. september 2013 í samræmi við þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda íslenskra heimila sem samþykkt var á Alþingi vorið 2013. Verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála hefur skilað ráðherra tillögum sínum og unnið er að því í velferðarráðuneytinu að skapa ramma framtíðarfyrirkomulags með laga- og reglugerðasmíð sem vonandi verður tilbúið sem fyrst. Fyrir vikið hefur stefnumótandi ákvörðunartaka í nánasta umhverfis sjóðsins verið sett í biðstöðu en slíkt hefur áhrif á rekstur sjóðsins með ýmsum hætti“.
Verkefnastjórnin skilaði tillögum til ríkisstjórnarinnar í maí í fyrra. Í tillögunum, sem eru umdeildar, er lagt til að tekið verði upp nýtt húsnæðiskerfi þar sem sérhæfð húsnæðislánafélög annast lánveitingar til fasteignakaupa. Öll umgjörð íbúðalána á að miðast við að jafnvægi sé milli útlána og fjármögnunarlána, líkt og tíðkast í Danmörku. Þetta kerfi er enda í daglegu tali kallað danska kerfið.
Samkvæmt tillögunum verður núverandi lánasafn Íbúðalánasjóðs látið renna út, honum skipt upp í nýtt opinbert húsnæðislánafélag og einhvers konar umgjörð um mörg af verkefnum sjóðsins í dag. Í skýrslunni segir: „Nokkur vinna var við útfærslu tillagnanna á árinu 2014. Kannaður var rekstrargrundvöllur nýs húsnæðislánafélags í eigu ríkisins, en ákveðið að hefja ekki undirbúning að stofnun slíks félags fyrr en fyrir liggur hverjar breytingar verða á lögum um fjármálafyrirtæki. Rætt var um að leggja alfarið af lánveitingar sjóðsins til þess að auka ekki á ábyrgðir ríkissjóðs vegna hans, en sjóðurinn hefur ekki sótt fé á markað með útboðum síðan 2012. Sem stendur virðist vinna við útfærslu tillagnanna vera í biðstöðu. Ekki hafa enn verið lögð fram á Alþingi frumvörp um breytingu á verkefnum Íbúðalánasjóðs en fyrir liggja drög að frumvarpi um stofnstyrki til leigufélaga.“