Sigurður G. Guðjónsson hrl., lögmaður Sigurjóns Þ. Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, segir niðurstöðuna frá því í morgun, þar sem Sigurjón var sýknaður af ákæru um umboðssvik, ekki hafa komið á óvart. Hann segir „aðför“ ákæruvaldsins á hendur honum ekki ná nokkurri átt. „Ég hef alltaf verið fullviss um að Sigurjón væri saklaus. Hann hefur svarað öllum spurningum sérstaks saksóknara, vísað á gögn og skýrt það sem kallað hefur verið eftir. Á hann hefur einfaldlega ekki verið hlustað, en það er jákvætt að dómstólar skuli gera það. Það hefur aldrei verið neinn grundvöllur fyrir refsimáli á hendur Sigurjóni,“ segir Sigurður.
Eins og greint var frá í morgun voru Sigurjón, og Sigríður Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans, sýknuð í Héraðsdómi Reykjavík. Þau voru ákærð fyrir umboðssvik upp á 13,6 milljarða króna. Ætluð brot þeirra, sem þau hafa nú verið sýknuð af, vörðuðu allt að sex ára fangelsi.
Sigurjón og Sigríður Elín hafa nú tvívegis verið sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur, fyrst í IMON-málinu svokallaða, og síðan núna í meintu umboðssvikamáli. Af þeim þremur málum sem Sigurjón hefur verið ákærður vegna liggja nú fyrir tveir sýknudómar í héraði, og hefur það þriðja, þar sem Sigurjón er ákærður ásamt fleirum fyrir markaðsmisnotkun, verið dómtekið.
Sigurður segir að málin megi rekja til kæru frá Fjármálaeftirlitinu (FME). „Málið má rekja til kæru frá FME í tíð Gunnars Andersen sem forstjóra. Sigurjón hefur margfarið yfir málin í yfirheyrslum og gefið skýringar á því sem spurt er út í, þar á meðal kaupréttarkerfinu sem sett var upp í bankanum áður en Sigurjón hóf þar störf, en þá var Gunnar Andersen þar sem starfsmaður og kom að uppsetningu á kaupréttarkerfinu. Nú er búið að sýkna í þessum tveimur málum í héraði, og öðru þeirra hefur verið skotið til Hæstaréttar. Nú er bara að takast á við framhaldið í þessum málum, en þessi niðurstaða hlýtur að valda Jóhönnu (Sigurðardóttur) og Steingrími (J. Sigfússyni) miklum áhyggjum. Það er búið að hundelta Sigurjón árum saman, og hann úttalaður sem glæpamaður, þrátt fyrir að ekki sé neinn fótur fyrir slíkum ásökunum. En sýknudómar í málum gegn honum koma mér ekkert á óvart og eru algjörlega í takt við mína sannfæringu. Það verður svo að koma í ljós hvað Hæstiréttur gerir,“ sagði Sigurður.
Ekki liggur enn fyrir hvort sérstakur saksóknari hyggst áfrýja málinu til Hæstaréttar.