Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, segir að ekki sé unnt að fallast á áætlanir Reykjavíkurborgar um fyrirhugaða byggð í Skerjafirði að óbreyttu. Óásættanlegt sé að farið sé í slíkar framkvæmdir án þess að fullkannað sé hvort og þá með hvaða hætti verði tryggt að þær hafi ekki neikvæð áhrif á rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. „Ráðherra mun því hvorki geta fallist á að farið verði í umræddar framkvæmdir í Skerjafirði né aðrar slíkar framkvæmdir í næsta nágrenni við flugvöllinn nema sýnt hafi verið með óyggjandi hætti fram á að flugöryggi og rekstraröryggi sé ekki stefnt í hættu.“
Þetta kemur fram í skriflegu svari Sigurðar Inga við fyrirspurn Þorgríms Sigmundssonar, varaþingmanns Miðflokksins, um hvort ráðherrann ætli sér að koma í veg fyrir „byggð í Nýja-Skerjafirði eins og þarf til að verja Reykjavíkurflugvöll?“
Verðandi borgarstjóri Framsóknar vonast eftir hverfinu
Í svari sínu ítrekar Sigurður Ingi því fyrri afstöðu ráðuneytisins, sem var gerð opinber í bréfi til borgarstjórnar Reykjavíkur í júní þar sem sagði að framkvæmdir við byggðina dragi verulega úr rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.
Í frétt RÚV um bréfið, sem birt var 24. júní, var rætt við Einar Þorsteinsson, oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík og samflokksmann Sigurðar Inga, sem situr nú í meirihlutastjórn í Reykjavík.
Einar gegndi þá hlutverki staðgengils borgarstjóra og verður auk þess borgarstjóri frá og með byrjun árs 2024. Í fréttinni sagðist Einar vonast til þess að framkvæmdir við uppbyggingu hverfisins yrðu ekki blásnar af. „Ég vona það verði hægt að byggja þarna fallegt hverfi, sem þjónar þessum hópum sem eru í sárri neyð eftir húsnæði og um leið að tryggja rekstraröryggi flugvallarins.“