Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að Reykjavíkurborg muni ekki fá að byggja upp á flugvallarlandi í Nýja Skerjafirði fyrr en búið verði að finna nýjan stað undir þá starfsemi sem í dag er á Reykjavíkurflugvelli.
Þessi orð lét hann falla í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar í morgun, í framhaldi af skeytasendingum sem gengið hafa á milli ráðuneytis hans, Reykjavíkurborgar og ríkisfyrirtækisins Isavia um fyrirhugaða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Skerjafirðinum sem Reykjavíkurborg vill hefja í sumar.
Ráðherra fullyrðir í viðtalinu að áætlanir Reykjavíkurborgar um uppbyggingu húsnæðis á þessum stað brjóti gegn ákvæðum í samkomulagi á milli ríkisins og borgarinnar frá 2019 um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni.
„Meðan annar kostur, jafngóður eða betri, er hvorki fundinn né uppbyggður þá felst samkomulagið í því að þessi völlur hér, sem við stöndum á, eigi að vera í óbreyttri, rekstrarlega og öryggislega, mynd. Og það er hann ekki, að mati Isavia og þeirra ráðgjafa, ef að þessar byggingar fara af stað hér í Skerjafirði,“ sagði ráðherra í viðtalinu.
Í samkomulaginu frá 2019 sagði að aðilar lýstu sig sammála um að tryggja ætti rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur og að Reykjavíkurflugvöllur ætti áfram að geta þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til nýr flugvöllur yrði tilbúinn til notkunar.
Kveðið á um byggð sunnan flugvallar í samkomulagi frá 2013
Í samkomulaginu frá 2019 var einnig vísað til þess að þetta nýja samkomulag ógilti ekki eldra samkomulag um innanlandsflug frá 2013 á milli borgarinnar og ríkis.
Í því samkomulagi var meðal annars fjallað um lokun norð-austur/suð-vestur flugbrautarinnar, sem stundum var kölluð neyðarbrautin, og að það land sem losnaði við lokun hennar sunnan vallarins yrði skipulagt undir blandaða byggð.
Túlka skýrslu hollenskra ráðgjafa með ólíkum hætti
Reykjavíkurborg svaraði á dögunum athugasemdum sem bárust frá Isavia og innviðaráðuneytinu um þessi mál með þeim hætti að hvorki flugöryggi né rekstraröryggi vallarins yrði stefnt í hættu með uppbyggingunni í Nýja-Skerjafirði.
Isavia fékk hollensku loft- og geimferðastofnunina (NLR) til þess að vinna rannsóknir á áhrifum uppbyggingarinnar í Skerjafirði á flugöryggi og vísaði Reykjavíkurborg m.a. til þess mats í svarbréfi sínu til ráðuneytisins.
Niðurstöður skýrslunnar frá NLR voru á þá leið að út frá öryggissjónarmiðum væri áhættan af uppbyggingunni fyrir flugöryggi „ekki óásættanleg“ og „ætti að vera álitin þolanleg“ en til þess þyrfti þó að grípa til ákveðinna mótvægisaðgerða.
Hollensku sérfræðingarnir nefndu að ein möguleg mótvægisaðgerð væri sú að láta flugmenn vita að töluverð ókyrrð gæti verið í lokaaðflugi þeirra við ákveðnar aðstæður og önnur væri sú að fylgst yrði með því hve oft þær aðstæður sem leitt gætu til ókyrrðar kæmu upp. Báðar þessar mótvægisaðgerðir væru í höndum Isavia.
„Þess er vænst að þessar mótvægisaðgerðir eigi að vera nægilegar til þess að takast á við áhættuna sem komið hefur í ljós. Því er það niðurstaðan að áhættan sé viðráðanleg og ætti ekki að koma í veg fyrir uppbyggingu íbúðabyggðarinnar í Nýja-Skerjafirði,“ sagði í niðurlagi skýrslunnar frá hollensku sérfræðingunum.
Þrátt fyrir þetta hefur Isavia áhyggjur og hefur bent á í minnisblöðum sínum um málið að óvíst sé um áhrif á minni loftför, sem verði fyrir meiri áhrifum af sviptivindum en stærri vélar. Isavia hefur einnig sett fram áhyggjur af því að á framkvæmdatíma aukist líkur á að jarðefni og smádót fjúki inn á flugbrautina.
Sagði leiðinlegt að þurfa að slá á puttana á borginni
Í viðtalinu í dag segist Sigurður Ingi ekki hafa séð þær mótvægisaðgerðir sem hægt væri að benda á og segir að Reykjavíkurborg muni ekki geta fengið svæði, sem í dag er innan flugvallargirðingar, til uppbyggingar í sumar.
Hann sagði einnig að honum þætti „eiginlega leiðinlegt að það þurfi að slá á puttana á meirihlutanum í Reykjavík aftur og aftur út af þessu“.
Óljóst er hverjar lyktir þessa máls verða eða hvaða áhrif orð ráðherra í reynd hafa, en Reykjavíkurborg fer með skipulagsvaldið á svæðinu og er nýja hverfið í Skerjafirði í deiliskipulagsferli um þessar mundir.
Í fyrri áfanga uppbyggingarinnar í Skerjafirði er gert ráð fyrir um 700 íbúðum, auk nýs leik- og grunnskóla, en fullbyggt hverfi á að vera með um 1.300-1.500 íbúðum.