Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans var í morgun dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir markaðsmisnotkun. Þar af eru níu mánuðir skilorðsbundnir. Ívar Guðjónsson, fyrrum forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbankans, og Júlíus S. Heiðarsson, sem var sérfræðingur í sömu deild, voru dæmdir í níu mánaða fangelsi, þar af eru sex mánuðir skilorðsbundnir.
Sindri Sveinsson, sem starfaði við eigin fjárfestingar hjá Landsbankanum, var sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Mennirnir fjórir voru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008. Samkvæmt ákæru áttu þeir að hafa handstýrt verðmyndun hlutabréfa í Landsbankanum og með því blekkt „fjárfesta, kröfuhafa, stjórnvöld og samfélagið í heild.“
Ákærðu neituðu allir alfarið sök í málinu. Sigurjón Þ . Árnason hefur sagt opinberlega að það séu mikil „vonbrigði“ hvernig málið sé sett fram. Fyrst og fremst vegna þess í að því hafi öllu verið snúið á haus.
Sigurjón var sýknaður í Ímon-málinu svokallaða 5. júní 2014, en umfang þess máls var þó ekki nándar nærri eins og mikið og það sem nú er í gangi.
Alls voru um 50 manns á vitnalista ákæruvaldsins í málinu.