Símafélögin vinna nú í sameiningu að því að greina orsakir þess að símtöl náðu ekki til Neyðarlínunnar síðastliðinn laugardag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Neyðarlínunni.
Þar segir: „Neyðarlínan hefur sl. sólarhring farið yfir gögn úr síma- og tölvukerfum sínum og jafnframt átt fundi með fjarskiptafélögum til að greina ástæður þess að á tímabilinu frá kl. 8.45 til 9.58 sl. laugardag voru mörg dæmi þess að símsvari segði „þetta númer er ekki til“ þetta voru röng skilboð úr kerfum símafélagana en um var að ræða að allar tengingar voru yfirfullar vegna álags. Félögin vinna nú í sameiningu að því að greina orsakir þessa og að tryggja að þetta ástand endurtaki sig ekki.“
Þá segir í fréttatilkynningunni að ekkert hafi komið fram sem bendi til bilunar í búnaði Neyðarlínunnar, eftir yfirferð gagna.
„Niðurstöður yfirferðarinnar gefa hins vegar tilefni til að endurmeta viðbúnað 112; afkastagetu tenginga við símafélögin, mögulega forgangsröðun eftir eðli erinda og sérstaka viðbragðsáætlun ef aðstæður sem þessar skapast aftur. Á sama tíma þurfa viðbragðsaðilar að taka þátt í að skerpa verklag við greiningu og úrvinnslu erinda.“
Í óveðrinu á laugardag varð meira álag á neyðarsímþjónustu 112 en áður hefur gerst. Um 1400 símtöl voru afgreidd á tímabilinu frá klukkan átta um morguninn og til hádegis. Þegar mest lét reyndu yfir 500 að hringja á sama tíma.
„Þessi reynsla er dýrmæt og verður nýtt til að efla viðbragðskerfið öllum til hagsbóta,“ segir að lokum í tilkynningunni frá Neyðarlínunni.