Síminn ætlar að breyta framsetningu á einni auglýsingu sinni um sjónvarp Símans, í kjölfar kvörtunar Vodafone til Neytendastofu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum.
Vodafone kvartaði undan tveimur fullyrðingum í auglýsingum frá Símanum, þar sem fullyrt er að „Vodafone hafi slökkt á hliðrænum útsendingum RÚV og að 70% landsmanna segi Sjónvarp Símans standa framar helsta keppinautnum“. Vodafone sagði báðar þessar fullyrðingar vera rangar, villandi og til þess eins fallnar að kasta rýrð á Vodafone og blekkja neytendur.
„Í fyrirsögn auglýsingar Símans sagði 70,6% landsmanna velja Sjónvarp Símans. Réttara hefði verið að vísa til 70,6% þeirra sem tóku afstöðu. Biðjumst við velvirðingar á því. Síminn mun bregðast við þessari kvörtun með því að senda Neytendastofu skýringarnar,“ segir í tilkynningu Símans.
Þar kemur fram að þjóðargátt Maskínu hafi unnið skoðanakönnun fyrir fyrirtækið í desember þar sem fólk var spurt hvort það teldi sjónvarp Símans eða Vodafone standa framar í sjónvarpsþjónustu. 70,6 prósent hafi svarað Síminn, en 29,4 prósent Vodafone.
Vodafone mótmælti því einnig að talað væri um að fyrirtækið hefði slökkt á hliðrænum útsendingum RÚV og Símanum hafi verið fullkunnugt um að lokun á slíkum útsendingum hafi alfarið verið ákvörðun RÚV. Síminn segist hins vegar standa við fullyrðingu sína um að Vodafone hafi lokað á hliðrænar útsendingar, „enda kemur það fram á heimasíðu Vodafone.“