Stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins, Síminn, verður skráð á hlutabréfamarkað í haust. Þetta kom fram í máli Orra Haukssonar, forstjóra Símans, á Kauphallardögum Arion banka í morgun. Arion banki er stærsti eigandi Símans með 38,32 prósent eignarhlut. Aðrir stórir eigendur eru íslenskir lífeyrissjóðir. Undir Símann heyra meðal annars Míla og Skjárinn.
Pétur Óskarsson, yfirmaður samskipta hjá Símanum, segir að vinna við gerð skráningarlýsingar sé þegar hafin og að stefnt sé að skráningu snemma næsta haust.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans eru Arion banki og Arctica Finance vinna að undirbúningi hlutafjárútboðs vegna skráningarinnar. Arion banki mun selja hluta af eign sinni í Símanum í hlutafjárútboði í aðdraganda skráningar en ekki liggur fyrir hversu stóran hluta bankinn ætlar að selja.
Síminn verður 16 félagið í Kauphöll Íslands gangi áformin eftir. Í dag eru þrettán félög skráð auk þess sem hlutabréf í Reitum verða tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland í fyrramálið og Fasteignafélagið Eik er komið langt með að verða skráð á markað. Síminn verður annað fjarskiptafyrirtækið á markaði. Hitt er Vodafone sem var skráð á markað í lok árs 2012.
Viðsnúningur eftir 50 milljarða tap eftir hrun
Skipti, móðurfélag Símans, var sameinað dótturfélaginu Símanum á síðasta ári og er samstæðan nú öll rekin undir nafni Símans. Mikill viðsnúningur hefur orðið á rekstri hennar á undanförnum árum. Á tímabilinu 2008 og til loka árs 2013 tapaði félagið samtals 50 milljörðum króna. Í fyrra hagnaðist félagið hins vegar í fyrsta sinn frá hruni, um 3,3 milljarða króna.
Hið mikla tap sem var á rekstri Skipta á árunum eftir hrun var að stóru leyti tilkomin vegna þess að viðskiptavild félagsins var skrúfuð niður um 33 milljarða króna frá árslokum 2008. Á árinu 2013, sama ári og fjárhagslegri endurskipulagningu Skipta lauk, bókfærði félagið til að mynda 17 milljarða króna tap þrátt fyrir að hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta hefði verið 8,3 milljarðar króna.
Ekki í fyrsta sinn sem Síminn er á markað
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Símann fer á markað. Þegar Exista, og viðskiptalegir meðreiðarsveinar þess áður stórtæka fjárfestingarfélags, keyptu Símann af íslenska ríkinu undir hatti félags sem fékk nafnið Skipti á upphæð sem í dag myndi vera um 140 milljarðar króna, árið 2005 fylgdu því ákveðin skilyrði. Eitt slíkt var ákvæði í kaupsamningi um að almenningi og öðrum fjárfestum yrði boðið að kaupa 30 prósent hlut í félaginu í gegnum hlutafjárútboð og skráningu á markað.
Þegar kom að skráningunni í mars 2008 voru óveðursskýin farin að hrannast upp yfir íslensku viðskiptalífi og hlutabréfaverð hafði hríðfallið mánuðina á undan. Skipti voru skráð á markað en fljótlega eftir að fyrstu viðskipti voru hringd inn á skráningardeginum gerði Exista yfirtökutilboð í félagið. Skipti voru síðan afskráð nokkrum mánuðum síðar.