Það er óhætt að segja, að gleðileg tíðindi séu í því fólgin, að losun hafta sé nú að komast á framkvæmdastig, með miklum ávinningi fyrir ríkissjóð. Um 900 milljarða vandi mun umbreytast til góðs, fyrir íslenskan almenning, einstaklinga og fyrirtæki.
Eitt sem hefur verið gleðilegt að sjá, í kjölfar þess að áformin voru kynnt, er að stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, virðast tilbúnir að vinna saman að því að leysa úr vandanum á þeim grunni sem stjórnvöld hafa nú kynnt. Það er ekki svo oft sem það gerist, en nú virðist von um það. Því ber að fagna, því það eykur líkurnar á að farsæl niðurstaða fáist í þessi mál, eins og útlit er fyrir að geti orðið raunin.
Stjórnvöld og seðlabankinn, auk ráðgjafa sem hafa komið að málinu, eiga hrós skilið fyrir að vinna að farsælli lausn á þessum mikla vanda sem hefur hangið yfir hagkerfinu frá hruni þess haustið 2008, þó nú sé framkvæmdin eftir. Það eykur tiltrú á stjórnmálamönnum þegar þeir eru tilbúnir að vinna með sérfræðingum og standa saman um góð mál.