Píratar eru enn langstærsti flokkur landsins en Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig töluverðu fylgi milli mánaða. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup sem greint var frá í kvöldfréttum RÚV. Fylgi Pírata mælist nú 34,6 prósent, um 1,3 prósentustigum minna en í síðustu könnun.
Sjálfstæðisflokkurinn tekur stórt stökk upp á við og mælist með 24,4 prósent fylgi. Hann mældist með 21,6 prósent fylgi í byrjun september. Vert er að taka fram að sú niðurstaða var sú næstversta sem flokkurinn hafði fengið í könnunum Gallup. Eina skiptið sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði mælst minni var í nóvember 2008, í miðju hruni. Flokkurinn er einnig nokkuð frá kjörfylgi sínu, sem var 26,7 prósent í síðustu kosningum.
Framsóknarflokkurinn tapar fylgi og mælist nú með 10,1 prósent stuðning. Það er ansi langt frá kjörfylgi flokksins í síðustu alþingiskosningum, þegar hann fékk 24,4 prósent atkvæða. Vinstri grænir tapa sömuleiðis lítillega en bæði Samfylkingin og Björt framtíð, sem hafa verið í frjálsu falli í könnunum undanfarna mánuði, bæta við sig fylgi. Hvorugur flokkurinn getur þó verið ánægður með stöðu sína. Samfylkingin mælist nú með 10,1 prósent fylgi og Björt framtíð með 5,6 prósent. Báðir flokkarnir eru langt frá kjörfylgi sínu.
Tæplega ellefu prósent aðspurðra tóku ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og liðlega níu prósent segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.
Stuðningur við ríkisstjórnina eykst um tvö prósentustig milli mánaða. Nú segjast um 36 prósent þeirra sem tóku afstöðu styðja hana.
Auglýsing