Engin þörf er á eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum til lengri tíma litið. Þetta kemur fram í drögum að landsfundarályktun efnahags- og viðskiptanefndar Sjálfstæðisflokksins. Drögin verða tekin til meðhöndlunar landsfundar Sjálfstæðisflokksins næstu helgi. Þau voru birt á vef flokksins í gær.
Íslenska ríkið á sem stendur nánast allt hlutafé í Landsbankanum, 13 prósent hlut í Arion banka og fimm prósent hlut í Íslandsbanka. Viðbúið er að ríkið losi um eignarhald sitt í Arion banka og Íslandsbanka samhliða sölu þeirra til nýrra eigenda sem áætluð er á næstu misserum. Þá gerir fjárlagafrumvarp ársins 2016 ráð fyrir að ríkið selji 30 prósent hlut í Landsbankanum á næsta ári fyrir um 71 milljarð króna.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur hins vegar látið hafa eftir sér að hann sjái fyrir sér að um 40 prósent hlutur í Landsbankanum verði í eigu ríkisins í framtíðinni. Verði drögin um eignarhald á bönkum samþykkt á landsfundi flokks hans er ljóst að flokkurinn er ósammála þeirri sýn formanns síns.
Sala á eignarhlut ríkisins í Landsbankanum er einnig í andstöðu við stefnu Framsóknarflokksins, sem myndar ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Á flokksþingi Framsóknarflokksins í apríl var samþykkt ályktun um að Landsbankinn verði áfram í ríkiseigu og starfi sem samfélagsbanki þar sem markmiðið er ekki að hámarka arðsemi.
Í drögum að ályktunum efnahags- og viðskiptanefndra Sjálfstæðisflokksins segir hins vegar: "Fyrirséð er að eignarhald á bönkum breytist á næstu árum. Landsfundur áréttar að engin þörf er á eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum til lengri tíma litið. Tryggja þarf dreifða eignaraðild að viðskiptabönkum. Mikilvægt er að söluferli viðskiptabankanna verði opið og gagnsætt".