Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkti á fundi sínum í dag að hækka útvarsgreiðslur bæjarbúa úr 13,7 prósentum upp í 14,09 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn er með fjóra bæjarfulltrúa af sjö í bænum en einn þeirra, Bjarni Torfi Álfþórsson, snerist á sveif með minnihluta Samfylkingar og Viðreisnar/Neslista varðandi hækkun útsvarsins.
Hann sagðist telja rétt að hækka útsvarið, en reyndar ekki jafn mikið og minnihlutinn í bæjarstjórninni hafði áður lagt til. Breytingartillaga hans við tillögu minnihlutans, um hækkun upp í 14,09 prósent, var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur og ætti breytingin að sögn Bjarna Torfa að skila um 80-90 milljónum króna í bæjarsjóð á ársgrundvelli.
Sagðist verða að fylgja sannfæringu sinni
„Sannfæring mín stendur þarna, ég veit að þetta er ekki í anda þess sem flokkurinn hefur viljað standa fyrir, en við gerðum þetta líka 2010, á fyrsta ári þess kjörtímabils strax eftir hrun þvert á volg loforð úr kosningabaráttunni þá um vorið,“ sagði Bjarni Torfi á bæjarstjórnarfundinum, en hann hefur verið í bæjarstjórn Seltjarnarness um langt skeið.
„Ég held að við verðum að vera raunsæ og mér finnst þetta pínu sárt að fara svona á bak við félaga mína með þetta, en þetta er sannfæring mín og ég verð að fylgja henni,“ sagði Bjarni Torfi einnig á fundinum er hann gerði grein fyrir skoðun sinni. Upptöku af fundinum má nálgast hér.
Bjarni Torfi sagður með hníf í baki samherja sinna
Í kjölfar samþykktarinnar las Magnús Örn Guðmundsson, sem er formaður bæjarráðs, upp bókun þar sem hann sagði skattahækkunina algjöra vitleysu.
Einnig sagði hann Bjarna Torfa samflokksmann sinn hafa svikið kjósendur Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi og stungið samherja sína í bæjarpólitíkinni í bakið, með því að leggja til hækkun útsvarsins.
„Hækkun skatta á íbúa á þessum tímapunkti er svo mikil vitleysa að engu tali tekur. Engu sveitarfélagi dettur slíkt í hug í ljósi ástandsins. Hjá minnihlutanum kveður við sama tón og venjulega, hækkun skatta á að leysa allan vanda. Þrátt fyrir það er útsvar á hvern Seltirning eitt það hæsta á landinu. Jafnframt blasir við tækifæri til hagræðingar áður en hækka þurfi skatta. Nýtt er þó að sjá fulltrúa meirihlutans Bjarna Torfa Álfþórsson svíkja kjósendur Sjálfstæðisflokksins með þessum hætti og um leið stinga samherja sína í bakið,“ sagði Magnús Örn í bókun sinni.
Útsvarprósentan á Seltjarnarnesi verður þrátt fyrir þessa hækkun enn ein sú lægsta á höfuðborgarsvæðinu og einungis lægri í Garðabæ, þar sem hún er 13,7 prósent. Reykjavíkurborg leggur á hámarksútvar sem 14,52 prósent og útsvarsprósentan í Kópavogi, Hafnarfirði og Mosfellsbæ er 14,48 prósent, eða nær alveg við hámarkið.