Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar segir að Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hafi fallið á eigin prófi. Að baki fjölgun ráðuneyta búi engin knýjandi þörf – engin önnur þörf en sú að fjölga ráðherrum svo valdahlutföllin milli stjórnarflokkanna haldist.
Þetta kom fram í máli hennar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Benti hún á að Bjarni hefði þegar greint frá því að kostnaðurinn við stofnun nýrra ráðuneyta myndi hlaupa á hundruðum milljóna króna og að þennan kostnað ætti að setja í samhengi við fjárlögin í heild og öll þau verkefni sem ríkið sinnir.
„Hæstvirtur fjármálaráðherra fellur þarna á eigin prófi. Hans verkefni er að halda á veski skattgreiðenda og fara skynsamlega með fjármuni almennings. Að baki fjölgun ráðuneyta býr auðvitað engin knýjandi þörf, engin önnur þörf en sú að fjölga ráðherrum svo valdahlutföllin milli stjórnarflokkanna haldist.
Hundruð milljóna króna-kapallinn er afleiðing þess að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn, samþykktu að Vinstri græn héldu þremur ráðherrastólum þrátt fyrir mikið fylgistap og gjaldið fyrir það að langminnsti flokkurinn fái samt að leiða ríkisstjórn. Hérna þarf að segja hið augljósa, sem er að fyrir þetta borga skattgreiðendur. Almenningur og fyrirtækin í landinu taka reikninginn og þessir fjármunir fara ekki í önnur verkefni,“ sagði Þorbjörg.
Tölvupósthólf þingmanna fyllast af bréfum frá fólki
Telur Þorbjörg að Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn langt frá ábyrgum og skynsamlegum ríkisrekstri.
„Annað dæmi er það hvernig ráðuneytin blása út og að á síðasta kjörtímabili stofnaði þessi ríkisstjórn 248 nýjar nefndir til viðbótar við allar þær sem þegar voru starfandi. Var knýjandi þörf á þeim öllum? Síðan eru dæmi um það þar sem þörfin er sannarlega knýjandi.
Tölvupósthólf þingmanna eru að fyllast af bréfum frá fólki sem ekki sér fyrir sér að geta haldið jól. Ríkisstjórnin virðist ekki ætla að veita öryrkjum sérstaka uppbót fyrir jólin og bréfin endurspegla sorg vegna þessa. Að sjá til þess að enginn líði sáran skort, það er verkefnið sem ríkinu ber að sinna og það er samhengið sem fjármálaráðherra sjálfur lýsti eftir og það er dómurinn um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar,“ sagði hún að lokum.