Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur ákveðið að næsti landsfundur flokksins fari fram í Laugardalshöll dagana 4.-6. nóvember. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birtist á vef Sjálfstæðisflokksins í dag, en Kjarninn sendi flokknum fyrirspurn í morgun og óskaði staðfestingar á því að þessi helgi hefði orðið fyrir valinu á fundi miðstjórnar, eins og heimildir hermdu.
Landsfundurinn fer með æðsta vald í málefnum flokksins og þar er stefna flokksins mótuð og forysta hans kjörin. Seturétt á landsfundi eiga flokksráðsfulltrúar flokksins, auk þess sem félög og fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins um allt land kjósa fulltrúa til setu á fundinum.
Síðasti landsfundur í mars 2018
Fundirnir eru að jafnaði haldnir annað hvert ár, en kórónuveirufaraldurinn hefur staðið landsfundahöldum fyrir þrifum og nú eru liðin rúm fjögur ár frá því að flokkurinn hélt síðasta landsfund sinn í Laugardalshöllinni í mars árið 2018.
Flokkurinn hefur tvívegis frestað landsfundi sínum vegna veirufaraldursins og samkomutakmarkana sem stóðu því fyrir þrifum að á annað þúsund sjálfstæðismenn gætu komið saman til skrafs og ráðgerða.
Árið 2020 stóð til að hafa fund dagana 13.-15. nóvember og árið 2021 stóð til að funda 27.-29. ágúst. Ekkert varð af því og því hélt flokkurinn til þingkosninganna í fyrra án þess að ná að halda landsfund.
Landsfundurinn sem haldinn verður í haust verður sá 44. í röðinni hjá Sjálfstæðisflokknum.