Á borgarstjórnarfundi á þriðjudag lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fram tillögu um að gera fólki sem leigir félagslegt húsnæði Félagsbústaða kleift að eignast það.
Í tillögunni fólst að Félagsbústaðir, sem eru að öllu leyti í eigu Reykjavíkurborgar, myndu selja allt að 100 íbúðir árlega eða allt að 300 íbúðir á þremur árum. „Þannig láni Reykjavíkurborg fyrir útborgun í félagslegu húsnæði til handa núverandi leigjendum með sérstöku eiginfjárláni til þriggja ára sem gerir þeim sem eru eignaminni auðveldara að greiða útborgunina. Þannig myndi Reykjavíkurborg lána allt að 20 prósent.“
Tillagan er felld með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.
Á sama fundi var tillaga Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, um niðurfellingu leigu hjá leigjendum Félagsbústaða á krepputímum lögð fram.
Tillagan var felld með felld atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins.
Íbúarnir borga lægri leigu og eru ánægðari
Í Reykjavík er 78 prósent af öllu félagslegu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þótt íbúar höfuðborgarinnar séu 56 prósent íbúa á svæðinu.
Alls halda Félagsbústaðir á 2.966 íbúðum. Almennar íbúðir eru 2.154, 428 eru svo útbúnar fyrir fatlaða, 384 eru fyrir aldraða og 43 íbúðareiningar eru fyrir heimilislaust fólk. Að öllu meðtöldu er 22 félagsleg íbúð á hverja 1.000 íbúa Reykjavíkur – en þeir voru 134.162 talsins þann í upphafi ágúst. Heildarfjöldi félagslegra íbúða í Reykjavík við árslok 2017 var sagður 2.513 og hefur þeim því fjölgað um rúmlega 450 síðan þá.
Í nýlegri könnun kom fram að 84 prósent leigjenda óhagnaðardrifinna leigufélaga á borð við Félagsbústaði eru ánægðir með að leigja þar. Ánægjan hjá þeim sem leigja hjá einkareknu leigufélögunum á Íslandi er hins vegar mun minni, en á meðal leigjenda þeirra segjast 64 prósent vera ánægð með núverandi húsnæði.
Töluverður munur er á því að leigja af einkaaðila og því að leigja af hinu opinbera. Í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem birt var í október kom fram að það kosti að meðaltali 168 þúsund krónur á mánuði að leigja af einkaaðila en 126 þúsund krónur á mánuði að leigja íbúð í eigu ríkis eða sveitarfélaga.
Því er þriðjungi dýrara að leigja af einkaaðila en af opinberum aðila.