Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti í dag málamiðlunartillögu þess efnis að kanna skuli til þrautar upptöku myntar sem sé gjaldgeng í alþjóðaviðskiptum í stað íslenskrar krónu. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Ekkert í þá átt var að finna í drögum að ályktunum landsfundar, sem málefnanefndir flokksins, höfðu undirbúið í aðdraganda hans. Ungir sjálfstæðismenn lögðu hins vegar fram um 80 breytingartillögur á þeim drögum. Sú sem vakti einna mesta athygli var að þeir telji að framtíðarlausn í gjaldmiðlamálum Íslands felist í öðrum gjaldmiðli en krónunni.Sú tillaga var á skjön við það sem fram kom í ræðuBjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, við upphaf landsfundar. Þar talaði Bjarni gegn því að Ísland kasti gjaldmiðli sínum.
Ungir sjálfstæðismenn hafa náð miklum árangri á landsfundinum. Um níu af hverjum tíu breytingartillögum þeirra, sem miða margar hverjar að auknu frjálslyndi á kostnað íhalds, hlutu brautargengi. Þá bauð Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, 24 ára laganemi og fyrrum formaður Heimdallar, sig fram gegn Guðlaugi Þór Þórðarsyni þingmanni í embætti ritara. Guðlaugur Þór ákvað að draga sig í hlé í kjölfarið og því er Áslaug Arna ein í framboði til embættisins, sem er það þriðja valdamesta innan Sjálfstæðisflokksins.
Í frétt RÚV segir að Bjarni hafi tekið til máls þegar málamiðlunartillagan var rædd og sagt að málið væri ekki einfalt. Það væru ágæt skilaboð frá fundinum að kanna upptöku annarrar myntar en þetta skref væri ekki þrautalaust. Bjarni sagðist þó styðja tillöguna.
Seðlabanki Íslands framkvæmdi ítarlega rannsókn á möguleikum Íslands í gjaldmiðla- og gengismálum. Skýrsla með niðurstöðum hennar var kynnt í september 2012. Þar kom fram að Íslendingar ættu tvo kosti í gjaldmiðlamálum: að halda íslensku krónunni eða að taka upp evru í gegnum myntbandalag. Eina leiðin til að gera það er að ganga í Evrópusambandið.