Sjálfstæðismenn mættu að meðaltali á flesta nefndarfundi hjá nefndum Alþingis á nýliðnu þingi, en Samfylkingarþingmenn fæsta. Þetta má lesa út úr gögnum sem Píratar hafa birt.
„Því er haldið fram að Píratar mæti illa á fundi. Stöplarnir sýna heildarfjölda nefndarfunda sem þingmaður og varaþingmenn hans mættu á,“ stendur á síðunni sem Píratar hafa sett upp. Gögnin eru fengin af vef Alþingis.
Í gögnunum kemur fram að hver þingmaður Sjálfstæðisflokksins mætti að meðaltali á 91 nefndarfund í vetur. Ásmundur Friðriksson mætti á flesta fundi, eða 136. Haraldur Benediktsson mætti á 132 fundi og var í öðru sæti meðal sjálfstæðismanna. Sá þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem mætti á fæsta fundi var Sigríður Á. Andersen, en hafa verður í huga að hún kom inn á þing sem varamaður fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í nóvember, og var fram á vor, og kom svo inn aftur en þá fyrir Pétur Blöndal. Ragnheiður Ríkarðsdóttir mætti á næstfæsta fundi, eða 52 talsins.
Framsóknarþingmenn eru í öðru sæti, og mættu að meðaltali á 88 þingfundi hver. Páll Jóhann Pálsson ber höfuð og herðar yfir aðra þingmenn flokksins, mætti á 146 fundi í vetur. Næsti maður á eftir, Líneik Anna Sævarsdóttir, mætti á 108. Sá þingmaður sem mætti á fæsta fundi var Silja Dögg Gunnarsdóttir, hún mætti á 45 fundi.
Björt framtíð er í þriðja sæti á þessum lista, en að meðaltali mætti hver þingmaður flokksins á 83 nefndarfundi. Björt Ólafsdóttir mætti á flesta, eða 134 talsins, en formaðurinn Guðmundur Steingrímsson á fæsta, 41.
Hjá Vinstri grænum mætti hver þingmaður að meðaltali á 78 fundi. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir mætti á flesta þeirra, eða 143. Ögmundur Jónasson mætti á fæsta, 49.
Píratar mættu einnig að meðaltali á 78 fundi hver. Helgi Hrafn Gunnarsson mætti á 100 fundi, Jón Þór Ólafsson á 71 og Birgitta Jónsdóttir á 62.
Samfylkingin rekur svo lestina, en þingmenn hennar mættu á 63 fundi hver að meðaltali síðastliðinn þingvetur. Guðbjartur Hannesson mætti á langflesta fundina, eða 124. Næsti maður á eftir honum er Oddný Harðardóttir sem mætti á 75 fundi. Össur Skarphéðinsson mætti á fæsta nefndarfundi, 32 talsins.
Hafa verður í huga að þingmenn geta verið í mismörgum nefndum.