Sjö af hverjum tíu kjósendum í Noregi eru á móti því að ganga í Evrópusambandið, samkvæmt skoðanakönnunum sem dagblöðin Nationen og Klassekampen létu gera. Lítill hluti landsmanna í Noregi er fylgjandi því að ganga í ESB, eða um 20 prósent.
Niðurstaðan í fyrrnefndum könnunum er í samræmi við kannanir sem gerðar hafa verið að undanförnu. Þrátt fyrir andstöðuna er meirihluti Norðmanna samt á því að þeir eigi að halda áfram að vera hluti af innri markaði Evrópu í gegnum EES samninginn.
Noregur hefur átt góðu efnahagslegu gengi að fagna undanfarin ár, ekki síst vegna gjöfula olíuauðlinda landsins og ekki síður öflugs fjölbreytilegs útflutningsgeira. Atvinnuleysi í landinu mældist 3,7 prósent í lok síðasta árs og hagvöxtur var tæplega tvö prósent.