Sjö ár eru í dag frá ávarpi Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í sjónvarpi á RÚV. Hann lauk ávarpi sínu á orðum sem eru þrykkt í minni íslensku þjóðarinnar. „Guð blessi Ísland“. Flestir Íslendingar muna vafalítið hvar þeir voru staddir þegar Geir birtist á sjónvarpsskjánum.
https://www.youtube.com/watch?v=pQA2kK_MFjA&feature=youtu.be
Neyðarlög voru samþykkt á Alþingi sem miðuðu að því að viðhalda fjármálakerfi landsins og koma í veg fyrir uppþot vegna fyrirsjáanlegs falls bankanna. Fjármálaeftirlitið fékk heimildir til þess að framkvæma neyðarlögin með því að skipta bönkunum upp og tókst að viðhalda svo til hnökralausri fjármálaþjónustu þrátt fyrir að bankarnir, Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn, féllu eins og spilaborg dagana 7. til 9. október. Endurreistu bankarnir byggja á grunni þessarar aðgerðar, Arion banki á grunni innlendrar starfsemi Kaupþings, Íslandsbanki á grunni innlendrar starfsemi Glitnis, og Landsbankinn á grunni gamla Landsbankans. Íslenska ríkið á Landsbankann nánast að fullu, 13 prósent í Arion banka og 5 prósent í Íslandsbanka.
Þegar þetta gekk yfir hélt krónan áfram að falla stjórnlaust og endaði með því að fjármagnshöftum var komið á í nóvember 2008. Þau eru enn fyrir hendi, og vinna stjórnvöld að því að rýmka þau og afnema.
Ávarp Geirs í heild sinni má sjá á vef forsætisráðuneytisins hér.
Verið að skrifa lokakaflann
Um þessar mundir er verið að skrifa lokakaflann í sögu yfirtöku, og síðar endurreisnar, íslenska ríkisins á bankakerfinu. Stjórnvöld kynntu í byrjun júnímánaðar áætlun um losun fjármagnshafta sem fól meðal annars í sér að leggja á 39 prósent stöðugleikaskatt á slitabú Glitnis, Kaupþings og Landsbankans. Skatturinn átti að skila ríkinu um 850 milljörðum króna. Á kynningunni var ekki gert grein fyrir því að þegar hafði verið samið við öll slitabúin um að greiða svokallað stöðugleikaframlag til að sleppa við álagningu skattsins. Undanfarnar vikur hafa kröfuhafar bankanna þriggja samþykkt þessa ráðstöfun á kröfuhafafundum og samkvæmt kynningum slitastjórna þeirra mun heildarumfang stöðugleikaframlags Glitnis, Kaupþings og Landsbankans vera 334 milljarðar króna.
Seðlabanki Íslands á þó enn eftir að veita slitabúunum undanþágu frá fjármagnshöftum til að þau geti lokið gerð nauðasamninga sinna. Takist það ekki fyrir áramót mun stöðugleikaskatturinn verða lagður á. Seðlabankinn hefur þegar sagt að nauðasamningsdrög bankanna uppfylli " í stórum stórum dráttum skilyrði um stöðugleika í gengis- og peningamálum“ og tryggja fjármálalegan stöðugleika í íslensku hagkerfi.