Sjö manns bjóða fram krafta sína í prófkjöri Viðreisnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í Reykjavík, sem fram fer dagana 4.-5. mars. Í prófkjörinu, sem er það fyrsta í sögu Viðreisnar, verður kosið um fjögur efstu sætin á lista flokksins.
Tvær vilja fyrsta sætið á lista, þær Þórdís Lóa Þórhallsdóttir núverandi oddviti borgarstjórnarflokksins og Þórdís Jóna Sigurðardóttir. Pawel Bartoszek borgarfulltrúi er einn um að gefa kost á sér í annað sæti á listanum, en fleiri eru um hituna hvað þriðja sætið á lista varðar.
Varaborgarfulltrúarnir Dilja Ámundadóttir Zoega og Geir Finnsson sækjast bæði eftir þriðja sætinu á lista og þau Erlingur Sigvaldason og Anna Kristín Jensdóttir óska eftir stuðningi í 3.-4. sæti á framboðslista flokksins.
Allir félagsmenn Viðreisnar 16 ára og eldri, sem búsettir eru í Reykjavík og hafa verið félagsmenn í a.m.k. þrjá daga fyrir prófkjör hafa kosningarétt, sem þýðir að þeir sem eru skráðir í flokkinn fyrir miðnætti 1. mars geta kosið í prófkjörinu.
Eini meirihlutaflokkurinn sem mældist undir kjörfylgi í nýjustu könnun
Viðreisn bauð fyrst fram til sveitarstjórna árið 2018 og fékk þá 8,2 prósent atkvæða í Reykjavíkurborg og tvo borgarfulltrúa kjörna. Í kjölfarið myndaði flokkurinn meirihluta ásamt Samfylkingu, Pírötum og Vinstri grænum.
Samkvæmt nýjustu könnuninni um fylgi flokka í Reykjavík, sem Maskína framkvæmdi í lok janúar og byrjun febrúar, mældist Viðreisn ögn undir kjörfylgi sínu og var eini flokkurinn núverandi meirihluta sem það gerði.
Flokkurinn mældist nánar til tekið með 5,9 prósenta fylgi í könnun Maskínu, sem myndi þýða að hann fengi einungis einn borgarfulltrúa kjörinn.
Frambjóðendur Viðreisnar í prófkjöri flokksins í Reykjavík
- Anna Kristín Jensdóttir
- Diljá Ámundadóttir Zoega
- Erlingur Sigvaldason
- Geir Finnsson
- Pawel Bartoszek
- Þórdís Jóna Sigurðardóttir
- Þórdís Lóa Þórhallsdóttir