Scotland Yard handtók í dag sjö menn, sem grunaðir eru um aðild að umfangsmiklu skartgriparáni sem átti sér stað hjá breska skartgripasalanum Hatton Garden í byrjun apríl. Fréttamiðillinn London Evening Standard greinir frá málinu.
Í samhæfðum aðgerðum ruddist 200 manna lögreglulið inn á tólf heimili í Norður-Lundúnum og handtók hina grunuðu. Í tilkynningu frá lögreglu segir að töluvert magn verðmæta hafi verið haldlagt í lögregluaðgerðunum, sem talið er að séu munir úr ráninu. Um er að ræða stóra poka fulla af skartgripum, sem fundust á heimilum mannanna.
Allir mennirnir sem handteknir voru eru Bretar og eru á aldrinum 48 til 76 ára. Í dag eru liðnar um sex vikur frá ráninu, þar sem skartgripaþjófar komust undan með verðmæti fyrir hátt í 60 milljónir punda, eða hátt í þrettán milljarða króna, í formi demanta, peninga og annarra verðmæta, í þaulskipulögðu og bíræfnu ráni.
Ræningjarnir boruðu gat á steinvegg sem var um hálfur metri að þykkt, til að komast inn í geymslu skartgripasalans, þar sem verðmætin voru geymd í bankahólfum. Ráninu hefur verið líkt við Hollywood kvikmyndina Oceans Eleven, en þjófarnir slógu út lyftu og komust niður lyftugöngin í kjallara þar sem verðmætin voru geymd.
Vangaveltur hafa verið uppi um að Austur-Evrópsk glæpasamtök hafi staðið að ráninu og til þess að framkvæma það hafi þau fengið upplýsingar frá innanbúðarmanni. Lögregluaðgerðirnar í dag benda til að mennirnir hafi ákveðið að halda kyrru fyrir í Lundúnum, þrátt fyrir vangaveltur um hið gagnstæða, til að bíða af sér mesta fjaðrafokið.
Aðgerðirnar í dag eru taldar vera Scotland Yard til hróss, en lögreglan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir rannsókn sína á ráninu sem og viðbrögð sín þegar viðvörunarkerfi skartgripasalans fór í gang.