Sjö sprotafyrirtæi úr orkugeiranum, sem eru þátttakendur í Startup Energy Reykjavík, hafa verið valin til þátttöku í viðskiptahraðlinum. Þau fá fimm milljónir í hlutafé, „ókeypis skrifstofuaðstöðu og aðstoð yfir 60 reynslubolta úr atvinnulífinu og akademíunni yfir tólf vikna tímabil. Markmið verkefnisins er að þessi sjö fyrirtæki vaxi og dafni eins hratt og mögulegt er á þessum tíma og verði að stöndugum fyrirtækjum í kjölfarið,“ segir í tilkynningu.
Fyrirtækin sem valin hafa verið áfram eru:
Keynatura - Vinnur andoxunarefni og fleiri verðmæt efni úr þörungum.
Laki - Mun nýta segulsvið háspennulína til að framleiða rafmagn.
Loki Geothermal - Mun framleiða og þjónusta jarðhitabúnað og vinnur m.a. að því að þróa höfuðloka á háhitaborholur.
Málmblendi - Tilgangur félagsins er að endurvinna kerbrot, sem falla til hjá álverum, á hagkvæman- og umhverfisvænan hátt.
XRG - Exergy – Nýting lághita til rafmagnsframleiðslu með nýrri tækni.
NATUS - Uppsetning hraðhleðslustöðva og þjónusta við rafbílaeigendur.
Rofar - Hönnun og framleiðsla á snjallrofum og öðrum stjórntækjum fyrir ljósabúnað og raftæki.
„Víða um heim er horft til Íslands þegar kemur að endurnýjanlegri orku, ekki síst í tengslum við nýtingu jarðhita. Íslenski jarðvarmaklasinn veltir milljörðum á hverju ári og eru íslenskir sérfræðingar á því sviði eftirsóttir um allan heim” segir Stefán Þór Helgason verkefnisstjóri Startup Energy Reykjavík . Hann segir mikil tækifæri liggja í orkugeiranum hér á landi. „Nýlega var tilkynnt að Ísland muni halda heimsþing Alþjóða jarðhitasambandsins árið 2020 en þingið sækja að jafnaði þúsundir aðila í jarðhitaiðnaði frá öllum heimshornum. Það er því ljóst að Íslendingar eru mjög framarlega á þessu sviði og hingað sækja erlendir aðilar í þá miklu þekkingu sem byggst hefur upp í orkugeiranum undanfarna áratugi,“ segir Stefán Þór.
Verkefninu lýkur 27. mars nk. með svokölluðum fjárfestadegi. Þar munu teymin sjö kynna hugmyndir sínar fyrir fullum sal fjárfesta í höfuðstöðvum Arion banka.
Bakhjarlar verkefnisins eru Arion banki, Landsvirkjun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og GEORG en framkvæmd þess er í höndum Klak Innovit og Iceland Geothermal.