Sjö fyrrverandi starfsmenn Sparisjóðsins í Keflavík sendu Persónuvernd formlega kvörtun vegna umfjöllunar Kjarnans um sparisjóðinn þann 22. ágúst 2013. Á meðal starfsmannanna eru fyrrverandi innri endurskoðandi og forstöðumaður áhættustýringar og útlánahættu Sparisjóðsins í Keflavík.
Þrjú erindanna bárust Persónuvernd 23. ágúst 2013, eða daginn eftir umfjöllun Kjarnans, og þrjár kvartanir til viðbótar bárust stofnunni næstu dagana á eftir. Þá var síðasta kvörtunin vegna málsins send Persónuvernd 25. mars síðastliðinn.
Birting leyniskýrslu olli fjaðrafoki
Umfjöllun Kjarnans um Sparisjóðinn í Keflavík byggði á kolsvartri leyniskýrslu endurskoðunarfyrirtækisins PwC um sjóðinn, sem unnin var að beiðni Fjármálaeftirlitsins. Samhliða umfjölluninni birti Kjarninn skýrslu PwC um sparisjóðinn í heild sinni, en hún er hátt í fimm hundruð blaðsíður að lengd. Í skýrslunni var að finna fjárhagsupplýsingar um helstu lántakendur og viðskiptavini sjóðsins sem og upplýsingar um útlánastöðu starfsmanna hans.
Eftir birtingu leyniskýrslunnar fór Fjármálaeftirlitið fram á að hún yrði fjarlægð af vefsíðu Kjarnans, vegna fjárhagsupplýsinga sem þar væri að finna um nafngreinda viðskiptavini og starfsmenn sjóðsins. Kjarninn hafnaði beiðni Fjármálaeftirlitsins um að fjarlægja skýrsluna, þar sem hún ætti erindi við almenning enda hafi gjaldþrot Sparisjóðsins í Keflavík kostað almenning tugi milljarða króna. Eins og kunnugt er eru mál er varða sjóðinn til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara.
Töldu að Kjarninn hefði brotið gegn friðhelgi þeirra
Starfsmenn Sparisjóðsins í Keflavík, sem sendu formlegar kvartanir til Persónuverndar vegna umfjöllunar Kjarnans, töldu að með birtingu skýrslunnar hefði verið brotið gegn stjórnarskrárvarðri friðhelgi þeirra. Persónuvernd sendi starfsmönnunum samhljóða bréf þann 30. desember síðastliðinn þar sem gerð var grein fyrir afstöðu stofnunarinnar. Kjarninn hefur bréf Persónuverndar undir höndum.
Í bréfunum segir: „Þrátt fyrir að í umræddri skýrslu sé að finna persónuupplýsingar lýtur kjarni úrlausnarefnis þess að því hvort Kjarninn ehf. hafi með tjáningu sinni í orði og verki, þegar fjölmiðillinn birti fyrrnefnda trúnaðarskýrslu á vefsíðu sinni, sem innihélt m.a. fjárhagsupplýsingar um yður, farið út fyrir ramma 73. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um tjáningarfrelsi og brotið gegn friðhelgi einkalífs yðar, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Er það mat Persónuverndar að umrædd skýrsla hafi einvörðungu verið birt í þágu fréttamennsku, og fellur því atvikið undir ákvæði 2. málsl. 5. gr. laga nr. 77/2000 (Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga).“
Í fimmtu grein laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga segir: „Að því marki sem það er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar má víkja frá ákvæðum laganna í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta.“
Valdheimildir Persónuverndar ná ekki yfir fréttamennsku
Sökum þess að vinnsla upplýsinga sem eingöngu fer fram í þágu fréttamennsku fellur utan ramma flestra ákvæða laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, meðal annars þeirra sem veita Persónuvernd heimild til að stöðva vinnslu persónuupplýsinga og beita dagsektum, telur stofnunin að hana skorti vald til að taka bindandi ákvörðun um hvort einhver hafi skapað sér ábyrgð að lögum með misnotkun á stjórnarskrárbundnum rétti til tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs. Persónuvernd tók því ekki afstöðu til kvartanna starfsmanna Sparisjóðsins í Keflavík á hendur Kjarnanum og vísaði þeim frá.
Í bréfunum til sjömenninganna biðst Persónuvernd velvirðingar á töfunum sem urðu á meðferð málsins, og beinir þeim tilmælum til þeirra að þeir snúi sér framvegis til Fjölmiðlanefndar hafi þeir athugasemdir við störf fjölmiðla, enda falli þær athugasemdir undir valdsvið nefndarinnar.