Sjóður bandarískja fjárfestisins John Paulson, Paulson Credit Oportunities Master, seldi allar kröfur sínar á slitabú Glitnis í ágúst síðastliðnum. Hann var í hópi stærstu kröfuhafa Glitnis og átti kröfur upp á 53 milljarða króna í vor. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Kjarninn hefur áður greint frá því að sjóðurinn hafi fyrst eignast kröfur á Glitni í mars 2013. Í maí sama ár var umfang krafnanna orðið tæpir 15 milljarðar króna og í apríl 2014 var það orðið um 53 milljarðar króna.
Í nýrri kröfuhafaskrá Glitnis frá 20. nóvember, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, er sjóðinn hins vegar hvergi að finna. Sjóður Johns Paulsons hefur því selt sig út aðeins 18 mánuðum eftir að hann keypti sig inn.
Hagnaðist mikið á stöðutöku fyrir hrun
Sá sem stofnaði sjóðinn og stjórnar honum er John Paulson. Um hann hafa verið skrifaðar bækur, á meðal þeirra „The biggest trade ever“, sem fjallaði um stöðutöku hans gegn húsnæðisbólunni í Bandaríkjunum sem gerði hann óheyrilega ríkan. Einn fimm aðalsjóða hans, Paulson Credit Opportunities Master, hóf að kaupa kröfur á Glitni af miklum móð vorið 2013.
Sjóðsstýringarfyrirtæki Paulson var sjöundi stærsti vogunarsjóður Bandaríkjanna í árslok 2012. Það e með um sex milljarði dala, um 750 milljarða króna, í stýringu. Paulson er talin vera á meðal 100 ríkustu manna heims í lok síðasta árs.
Burlington áfram langstærstur
Stærsti einstaki kröfuhafi Glitnis er áfram Burlington Loan Management, sem er í eigu bandaríska sjóðsstýringarfyrirtækisins Davidson Kempner. Sjóðurinn, sem er stór kröfuhafi margra annarra íslenskra slitabúa, og eigandi ýmissa íslenskra fyrirtækja, er stærsti einstaki kröfuhafi íslensks atvinnulífs. Samkvæmt Morgunblaðinu á Burlington samþykktar kröfur upp á 245 milljarða króna að nanfnvirði í bú Glitnis. Það eru tæplega ellefu prósent allra samþykktra krafna. Sjóðurinn hefur bætt lítillega við sig síðan í maí í fyrra, þegar hann átti kröfur upp á rúman 241 milljarð króna.