Á síðustu sex árum hefur umfang laxeldis í sjókvíum 13-faldast. Samkvæmt tölum frá Radarnum, mælaborði sjávarútvegsins, má búast við að sjókvíaeldið muni vaxa enn frekar, eða um 70 prósent, á tímabilinu 2020-2023.
Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu um fiskeldi nam heildarmagn eldisfisks í fyrra tæpum 41 þúsund tonnum og er það 8 sinnum meira en það var fyrir tíu árum síðan. Langstærstur hluti þess, eða 85 prósent, var eldislax, en einnig var framleitt töluvert magn af bleikju og regnbogasilungi.
Búist við enn meiri vexti
Samkvæmt Radarnum kom nær allur eldislaxinn, eða um 32 þúsund tonn, úr sjókvíum. Vöxturinn á sjókvíaeldinu hefur verið enn hraðari en vöxtur fiskeldisins í heild sinni, en frá árinu 2015 nam það aðeins 2 þúsund tonnum. Framleiðslan á eldislaxi í sjókvíum hefur því 13-faldast á sex árum.
Þróunina má sjá á mynd hér að ofan, sem fengin er með tölum frá Radarnum. Þar eru líka upplýsingar um spáðan framtíðarvöxt sjókvíaeldisins, miðað við magn seiða sem notuð eru til áframeldis. Miðað við þann fjölda hefur sérgreinadýralæknir fisksjúkdóma hjá MAST áætlað að magn sláturslax verði um 43,5 þúsund tonn í ár og 50 þúsund tonn á næsta ári.
Á árinu 2023 er svo gert ráð fyrir að magn eldislax í sjókvíum muni nema 55 þúsund tonnum, sem er tæplega helmingi meira en samanlögð framleiðsla á laxi í sjókvíum á árunum 2010-2018.
Eru endalok sjókvíaeldis fram undan?
Óvíst er hins vegar hversu lengi vöxturinn á sjókvíaeldi muni vara. Samkvæmt frétt Stundarinnar fyrr í vikunni spáði Atle Eide, stjórnarformaður eins stærsta hluthafans í íslenska laxeldisfyrirtækinu Arnarlaxi, endalokum sjókvíaeldis á laxi innan tíu ára. Samkvæmt Eide mun ný tækni binda enda á slíka framleiðslu og mun laxeldi frekar fara fram úti á rúmsjó eða með landeldi.