„Yngra fólk sem ætti að vera búið að taka við stjórn landsins, með ferskar og nútímalegar hugmyndir að leiðarljósi, leyfir öðrum að ráða og almenningur starir á í forundran og þykir þetta vera ein daprasta staðreyndin í íslenskum stjórnmálum í dag.“ Þetta er á meðal þess sem fram kemur í greiningu ráðgjafar- og rannsóknarfyrirtækisins Verdicta á pólitísku landslagi á Íslandi í janúar 2015.
Greiningin er byggð á eigindlegum viðtalsgögnum, það er viðtölum við fólk, bæði formlegum og óformlegum sem „tekin voru seinnihluta ársins 2014 og höfðu það að markmiði að skýra út hugsanir fólks til hins pólitíska landslags á Íslandi um áramót 2014/2015,“ eins og segir í skýrslunni.
„Tilgangurinn með þessu er að nota þá aðferðarfræði sem við notum alla jafnan í ráðgjafa- og rannsóknarverkefnum fyrir einkaaðila í verkefnum sem snerta heildina í því augnarmiði að auka umræðu um málefni sem eru til umræðu hverju sinni.“ Þetta segir Hallgrímur Óskarsson, framkvæmdastjóri Verdicta, í samtali við Kjarnann aðspurður um tilgang greiningarinnar.
„Nú var ákveðið að taka fyrir stjórnmál á Íslandi og landslagið sem þar er til staðar nú. Greiningin þessi er hugsuð fyrir allt áhugafólk um stjórnmál á Íslandi,“ segir Hallgrímur.
Valdablokk sjötugra með sterk ítök
Í greiningunni eru svokölluð sjónarmið sjötugra sögð ráða för hjá stjórnvöldum. „Almenningur telur að þau sjónarmið sem eru mest ráðandi við stjórnun landsins séu svokölluð sjónarmið sjötugra. Í öðrum stjórnarflokknum hefur Davíð Oddsson og félagar hans enn mikil völd og fólki finnst þeir ráða mestu á bak við tjöldin en þetta eru mestmegnis menn sem eru í kringum sjötugsaldurinn. Í hinum stjórnarflokknum eru einnig menn sem mestu ráða á bak við tjöldin og tengjast Kaupfélaginu í Skagafirði, Þórólfur Gíslason o.fl., en þar eru höfuðpersónurnar einnig á sjötugsaldri. [...] Formenn stjórnarflokkanna eru auðvitað langt frá því að vera sjötugir en þeir fella sjálfa sig inn í sjötuga-hópinn með því að leyfa honum að ráða miklu. Þess vegna eru formenn stjórnarflokkanna hluti af valdakerfi sjötugra þó að þeir séu rétt á fertugsaldri.“
Þá segir í greiningunni að hið sama megi segja um sumt yngra fólk sem sé að feta sín fyrstu spor í stjórnmálum. Það meti stöðuna þannig að það muni ekki hljóta brautargengi nema það tali fyrir sömu sjónarmiðum og gömlu valdahóparnir styðja. „Fólki finnast slíkir tilburðir afar daprir - sé í raun uppgjafastrategía - því þar er efnilegt stjórnmálafólk að taka afstöðu gegn umbótum og þar með almenningi.“
Nýlegt dæmi um hvernig sjónarmiðum sjötugra er komið að, er skipun Sigrúnar Magnúsdóttur í stöðu umhverfis- og auðlindaráðherra, að því er fram kemur í greiningunni. „Fólk er alveg sannfært um að þetta sé ekki vegna þekkingar hennar né reynslu á umhverfismálum heldur vegna þess að hún er tryggur varðhundur sjónarmiða sjötugra. Fólk telur að Sigrún sé valin í þetta embætti vegna þess að hún er nátengd valdakerfi sjötugra og muni ganga erinda þess kerfis. Fólk tengir þetta saman við að foringi sjötugra í Skagafirði hefur aukinn áhuga á að komast með hendur sínar í virkjanamál og það er vegna þessa sem Sigrún er valin - hún mun leyfa virkjanasjónarmiðum sjötugra ráða við ákvarðanatöku.“
Nýjar átakalínur í íslenskum stjórnmálum
Samkvæmt greiningunni hefur töluverð og hröð breyting orðið á pólitísku landslagi á Íslandi á undanförnum árum, þvert á pólitískar línur. Síðustu áratugina hafi um þriðjungur þjóðarinnar verið vinstrisinnaður eða félagshyggjufólk, og restin hægrisinnuð eða frjálshyggjufólk. Í dag skiptist þjóðin þannig að þriðjungur þjóðarinnar aðhyllist sjónarmið sjötugra, hagsmunagæslu og varðstöðu um gömul gildi, og tveir þriðju hlutar þjóðarinnar séu reiðir og neikvæðir sem vilji ný gildi og umbætur.
Ný skipting hefur sum sé tekin við sem fylgir ekki lengur hinni rótgrónu vinstri-hægri skiptingu eins og var. Samkvæmt skilgreiningu Verdicta skipist þjóðinn í neðangreindar tvær fylkingar.
1/3 þjóðar: Einstaklingssinnar, „sjónarmið sjötugra,“ hagsmunatengsl, viðhald gamalla gilda
- Eru að mestu fylgjandi núverandi stjórnvöldum.
- Hallast mikið til hægri, mikið til vinstri eða eru einfaldlega tækifærissinnar (hafa það sem aðalmarkmið að komast í valdastöðu).
- Aðhyllast foringjalýðræði, má vera á kostnað lýðræðis. Það er þess vegna í náttúrulegu eðli þessa hóps að þeir séu andstæðingar sem eru hópnum ekki sammála. Þess vegna verða RÚV og heilbrigðiskerfið andstæðingar þegar þeir gagnrýna stjórnvöld.
- Fylgni með minni menntun og búsetu á landsbyggð.
- Á yfirborðinu á það að vera hlutverk stjórnvalda að byggja upp réttlátt samfélag en í reynd er þó meiri áhersla lögð á að styrkja stöðu ákveðinna hópa umfram aðra.
- Samvinna á að byggjast á samvinnu milli einstaklinga og smærri hópa sem tala náið sín á milli og hjálpa hver öðrum. Líta á samvinnu við stærri bandalög sem neikvæða því þar er síður hægt að ná persónulegum tengslum við foringja og sverja hollustu. Slík samvinna er því valdaafsal.
- Taka ákvarðanir oft út frá því hvað beri að hræðast. Nota hræðslu sem vopn til að halda völdum.
- Skortir víðsýni og óttast nýjungar og það óþekkta og sjá lausnir út frá því sem gert hefur verið áður. Vilja viðhalda því sem til er, eru andsnúnir miklum áformum um breytingar. Á meðal þerra er takmörkuð geta til að sjá eigin sök.
2/3 þjóðar: Samfélagssinnar, „reiðir og neikvæðir,“ ný gildi og umbætur
- Eru síður fylgjandi núverandi stjórnvöldum.
- Hófsamt hægra- eða vinstrafólk, jafnaðarfólk.
- Eru líklegri til að búa á höfuðborgarsvæðinu og hafa meiri menntun.
- Hlutverk stjórnvalda á að vera að byggja upp gott og réttsýnt samfélag og sömu reglur og tækifæri eiga að gilda fyrir alla. Mikil áhersla lögð á mikla og víðtæka samvinnu á milli stórra, lýðræðislegra eininga og að pólitík gangi út á samræðu. Hafa þá trú á að samvinna leiði til framfara.
- Taka oft ákvarðanir út frá því hvar mestu möguleikarnir og tækifæri liggja.
- Eru oft reiðibúnir til að prófa nýjar lausnir og taka þeim með opnum huga. Eru reiðubúnir til að skoða miklar breytingar og líta til þeirra með víðsýni og jákvæðni. Minni hræðsla við breytingar og það óþekkta og eru sjálfsgagnrýnni en hinn hópurinn; getur horft á eigin sök í málum.
- Vilja geta tekist á í umræðu án þess að sá sem talar í mótrökum sé persónugerður sem andstæðingur.
Í greiningu Verdicta er valdablokk sjötugra skilgreind sem hópur eldra fólks sem vill viðhalda gömlum gildum og hægja á þeim breytingum sem samfélagið kallar eftir að verði að veruleika í landinu. „Þetta er gamla Sjálfstæðisklíkan, Skagafjarðarklíkan, eldra fólk sem vill ekki horfast í augu við breytta tíma eða taka tillit til nútímaþarfa. Þetta eru líka þessir sem eru ungir og ætla að nota þessar gömlu leiðir til að ná völdum. [...] Ef t.d. horft er á sögu Bjarna Ben innan Sjálfstæðisflokksins þá var hann alltaf talsmaður Evrópuumsóknar, þar til allt í einu þegar hann var kominn í kosningaslag um formannssætið. Þá fór hann að taka undir andstæð sjónarmið, það er sjónarmið sjötugra. Þetta finnst almenningi vera ósannfærandi því Bjarni er ungur og glæsilegur maður sem á að vera fulltrúi nútímagilda og framfararsinnaðra sjónarmiða.“