Bandaríska sjónvarpsstöðin NBC hefur ákveðið að framleiða tíu þátta sjónvarpsseríu sem byggir á íslenska spurningaleiknum QuizUp. Þetta verður gert í samstarfi við Plain Vanilla, fyrirtækið sem þróaði og rekur QuizUp, en þættirnir munu heita sama nafni og leikurinn.
Þátturinn verður eðli málsins samkvæmt spurningaþáttur, þar sem þátttakendur í upptökuveri munu keppa við sjónvarpsáhorfendur sem sitja heima, um öll Bandaríkin. Ef þátttakendur í myndveri vinna átta spurningalotur gegn átta ólíkum keppinautum geta unnið. Þeir sem sitja heima geta unnið þá upphæð sem í boði er fyrir hverja lotu ef þeir vinna. Sigurvegarar munu fá allt að eina milljón dollara í verðlaun, eða um 130 milljónir íslenskra króna.
Í fréttatilkynningu frá Plain Vanilla er sagt að búist sé við að fleiri sjónvarpsstöðvar víða um heim muni framleiða sínar útgáfur af þættinum. Þar er einnig haft eftir Paul Telegdy, sem er framkvæmdastjóri kvölddagskrár NBC, að sjónvarpsþátturinn sé eðlileg framlenging á leiknum. Þetta sé viðbót við viðskiptamódelið, „sjónvarpskonsept sem höfðar til allra og er frábær afþreying á hvaða tungumáli sem er. Þessi þáttaröð mun breyta vinsælasta spurningaappi í heiminum í skemmtilegan sjónvarpsviðburð.“
Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri og stofnandi QuizUp segir þáttinn frábært næsta skref. Síðustu mánuði hafi verið unnið að því að færa leikinn nær því að vera líka samfélagsmiðill. „Með tilkomu My QuizUp viðbótarinnar, sem fór í loftið í síðustu viku, þá geta notendur nú búið til sitt eigið efni og spurningar. QuizUp sjónvarpsþátturinn mun gera okkur kleift að færa nálgun Plain Vanilla á þetta sammannlega áhugamál fólks, að keppa í að svara spurningum rétt, beint inn í stofu til milljóna sjónvarpsáhorfenda. Við erum afskaplega spennt fyrir því.“