Umfang sérstakra komugjalda sem sérfræðilæknar og sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar leggja ofan á þjónustu sína við sjúklinga nemur hátt á annan milljarð króna árlega, samkvæmt mati Sveins Hjartar Hjartarsonar hagfræðings. Málefnahópur Öryrkjabandalags Íslands fól honum að reyna að leggja mat á þessi aukagjöld í heilbrigðiskerfinu og skýrsla um málið er kynnt í dag.
Helstu niðurstöður Sveins Hjartar eru þær að áætluð heildarfjárhæð sérstaks komugjalds til sérfræðilækna nemi 878 milljónum á ári að meðaltali síðustu þrjú ár, en í þessum tölum er miðað við miðgildi sérstaks komugjalds og byggja þær upplýsingar á svörum frá sérfræðilæknum, sem safnað var við gerð skýrslunnar. Miðað við þessa upphæð er áætlað að hlutur öryrkja af sérstöku komugjaldi nemi um 90 milljónum króna árlega.
Hvað sjúkraþjálfara varðar er áætlað að þeir hafi innheimt um 780 milljónir króna á ári í sérstök komugjöld, miðað við miðgildi gjaldsins sem fékkst uppgefið frá sjúkraþjálfurum, en algengast er að sjúkraþjálfarar rukki sjúklinga 500 krónur í komugjöld – þó dæmi séu um að sú upphæð fari upp í allt að 1.500 krónur. Kostnaðarhlutur öryrkja er áætlaður um 150 milljónir króna á ári og þessir fjármunir fást ekki endurgreiddir frá Sjúkratryggingum Íslands.
Leggst þungt á öryrkja og tekjulága
Í skýrslu Sveins Hjartar segir að ætla megi að kostnaður öryrkja og annarra lægri tekjuhópa vegna þessara komugjalda sérfræðilækna og sjúkraþjálfara nemi 1,1 til 1,86 prósentustiga álag á tekjuskatt á meðaltali.
„Þessi kostnaðarauki fer hækkandi eftir því sem þjónustan er notuð oftar. Þetta er til marks um hversu viðkvæmir þessir hópar eru fyrir hvers kyns nýjum álögum,“ segir í skýrslunni.
Sérgreinalæknar sögðu sig frá samningi við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) í lok árs 2018 og sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar gerðu hið sama í febrúar 2020. Síðan þá hefur greiðsluþátttaka SÍ verið samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar, auk þess sem það hefur liðist að sjúklingar séu krafðir um aukagjöld, sérstaklega í formi komugjalda, til að vega upp á móti metnu tekjutapi sérgreinalækna og sjúkraþjálfara.
Í inngangi skýrslunnar segir að Öryrkjabandalag Íslands líti svo á að með þessu sé sáttmála um hámarkskostnað sjúklinga í heilbrigðisþjónustu rift einhliða af þeim aðilum sem koma að samningsborðinu en ekki þeim sem sitja uppi með kostnaðinn.
„Aukagjöld þessi leggjast þungt á fatlaða og langveika félaga í ÖBÍ. Því meir sem þeir þurfa á þjónustunni að halda, hækkar kostnaðurinn og þeir án verndar kostnaðarþátttökukerfisins,“ segir sömuleiðis í inngangi skýrslunnar.
Kostnaðarþátttökuþakið sprengt
Í skýrslunni eru tekin dæmi um það hvernig aukagjöld sérfræðilækna og sjúkraþjálfara geta gjörsamlega hvellsprengt það þak sem ákvarðað hefur verið fyrir árlega kostnaðarþátttöku öryrkja vegna heilbrigðisþjónustu, en það eru 18.317 krónur.
Öryrki sem fer einu sinni í viku til sjúkraþjálfara í 40 vikur og greiðir 1.000 króna komugjald í hvert sinn og heimsækir sérfræðilækni sinn fimm sinnum yfir árið og greiðir honum 2.200 króna komugjald í hvert sinn, greiðir þannig í reynd 69.317 krónur fyrir heilbrigðisþjónustu sína, sem nemur 378 prósent hækkun á kostnaðarþátttöku þessa tiltekna einstaklings.
Skera þurfi úr um lögmæti gjaldannna
Í skýrslunni segir að við skoðun sérstakts komugjalds vakni sú spurning „hvort það standist lög að ríkisvaldið heimili einkaaðila að innheimta óskilgreint sérstakt komugjald af sjúklingum sem er í eðli sínu eins og hver annar veltuskattur“ og að það skipti þá ekki máli hvað slíkt gjaldsé kallað, sérstakt komugjald eða einfaldlega veltuskattur eða gjald.
„Niðurstaða um lögmæti gjaldsins fæst ekki nema fyrir dómstólum. Í ljósi þeirra upphæða sem hér er verið að fjalla um hlýtur það að vera mikilvægt að úr þessu verið skorið. Hvatinn til þess að hækka þetta gjald að óbreyttu er augljóslega auðsær,“ segir í skýrslunni.