Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) vantar um 500 milljónir króna aukalega inn í rekstrargrunn stofnunarinnar til þess að geta haldið áfram að veita sömu þjónustu og veitt er í dag. Til viðbótar við það er komin mikil viðhaldsþörf á húsnæði stofnunarinnar, sökum þess að síðustu ár hefur verið dregið úr og frestað meiriháttar viðhaldi til að vinna á móti hallarekstri sjúkrahússins.
Í minnisblaði frá forstjóra SAk til fjárlaganefndar Alþingis segir að „mjög óskynsamlegt“ væri að halda áfram að fresta viðhaldi sjúkrastofnunarinnar og viðhaldsskuldinni lýst sem gríðarlegri.
Í skilaboðum sjúkrahússins til fjárlaganefndar segir að slæm fjárhagsstaða SAk hafi áhrif á rekstur og möguleika til þróunar starfseminnar, auk þess sem mikið álag hafi verið á starfsfólki og greinileg hættumerki séu hjá öllum faghópum sem bregðast þurfi við, en í því samhengi er átt við langþreytu, veikindi og manneklu.
Leyfisgjöld til Microsoft tugmilljónum yfir fjárveitingum
Fram kemur í minnisblaðinu að helstu ástæður rekstrarvanda sjúkrahússins séu þær að veikindi starfsfólks hafi aukist og kostnaður vegna þessa séu um 151 milljón króna á verðlagi ársins 2022. Þá hafi stöðugildum læknanema, sérnámsgrunnlækna og sérnámslækna fjölgað um 10,1 frá 2015, sem tilkomið sé vegna breytinga á fyrirkomulagi sérnámslækna. Kostnaðurinn við þetta er sagður 219 milljónir króna.
Að auki er nefnt að lyfjakostnaður, annar en við leyfisskyld lyf, hafi aukist um 30 milljónir króna umfram hækkanir rekstrarframlaga frá árinu 2018 og kostnaður SAk við sjúkraflug hafi vaxið umtalsvert á síðustu árum, þannig að í það stefni að það kosti sjúkrahúsið 45 milljónir króna umfram fjárveitingar.
Þá segir að kostnaður SAk vegna leyfisgjalda fyrir tölvuþjónustuna Microsoft 365 hafi aukist gífurlega frá árinu 2017, leyfiskostnaður sjúkrahússins hafi verið 34 milljónir króna umfram fjárveitingar í fyrra og stefni í að verða 67 milljónir króna á þessu ári. Til viðbótar hafi svo verið gerð 47 milljóna króna aðhaldskrafa á stofnunina í fjárveitingum þessa ári.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2023 er áætlað að framlög úr ríkissjóði til rekstur SAk nemi rúmum 10 milljörðum króna, en þar af eru 200 milljónir króna áætlaðar til kaupa á tækjum og búnaði.
Stjórnvöld eigi að taka ákvörðun um niðurskurð þjónustu
Í minnisblaðinu frá SAk segir að þrátt fyrir þá rekstrarerfiðleika sem stofnunin hefur glímt við hafi engri þjónustu verið hætt á árinu, þar sem talin sé þörf á allri þeirri þjónustu sem í boði er. Þó er sagt frá því að skerðing hafi verið á starfsemi Kristnesspítala auk þess sem gripið hafi verið til tímabundinnar lokunar á dag- og göngudeild geðdeildar. Í minnisblaðinu segir að greina þurfi áhrif þessa á legudeildir, því lokanir á þjónustu auki álag á öðrum starfseiningum þar sem þörfin fyrir þjónustuna hverfi ekki.
Í minnisblaðinu segir frá því að SAk ætli ekki að skera niður í klínískri þjónustu sinni nema ákvörðun verði tekin um að hætta með einhverja þjónustueiningu. „Hvaða þjónustueining yrði lögð niður eða flutt til telja stjórnendur SAk vera stefnumarkandi ákvörðun stjórnvalda,“ segir í minnisblaði SAk til fjárlaganefndar.