Heilbrigðisþjónusta, og sérstaklega sjúkrahúsþjónusta, er mun dýrari hérlendis en í öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins þegar tekið er tillit til mismunandi kaupmáttar á milli landa. Þetta kemur fram í nýuppfærðum tölum á vef Hagstofu um alþjóðlegan verðsamanburð.
Í tölunum kemur fram samanburður á verði ýmissar þjónustu á milli Evrópulanda, þar sem verðið ýmsum vöru- og þjónustuflokkum er borið saman við meðaltal Evrópusambandslanda. Samkvæmt þeim er verðlag hærra í flestum flokkum hérlendis, en Íslendingar verja tæplega helmingi hærra hlutfalli af tekjum sínum í neysluútgjöld heldur en íbúar í aðildarríkjum Evrópusambandsins.
Mestur er munurinn á verðlaginu í sjúkrahúsþjónustu, sem Íslendingar verja 2,5 sinnum meira en íbúar Evrópusambandslanda að meðaltali, þegar tekið er tillit til mismunandi kaupmáttar á milli landa. Þetta er næsthæsta verðið á þjónustunni í öllum þeim 37 Evrópulöndum sem Hagstofan mælir, en hún er einungis dýrari í Sviss.
Líkt og sést á mynd hér að ofan er verðið á þjónustunni fjórðungi hærra en í Noregi, helmingi hærra en í Svíþjóð og 70 prósentum hærra en í Danmörku. Munurinn er svipaður ef heildarútgjöld í heilbrigðisþjónustu eru skoðuð, en í þeim flokki er Ísland dýrast allra Norðurlanda og næstdýrast í Evrópu, á eftir Sviss.
Rafmagn, hiti og hugbúnaður ódýr
Tvenns konar neysluvörur er aftur á móti ódýrari hérlendis heldur en í Evrópusambandinu, en það er annars vegar rafmagn og hiti og hins vegar hugbúnaður. Verðið á rafmagni og hita var þriðjungi lægra hérlendis heldur en að meðaltali í Evrópusambandinu í fyrra, en þó ekki jafnlaágt og í Noregi, þar sem rafmagn var helmingi ódýrara en í aðildarríkjum sambandsins.
Sömu sögu er að segja um hugbúnað, sem var rúmum 10 prósentum lægra hérlendis en í öðrum Evrópusambandslöndum, en samkvæmt samanburði Hagstofu var hugbúnaður hvergi ódýrari heldur en hér, þegar tekið er tillit til kaupmáttar.