Uppljóstranir fjölmiðla um að HSBC bankinn hafi aðstoðað þúsundir manna um allan heim við að skjóta peningum undan skatti hafa vakið mikla athygli víða í dag. Ekki síst hefur málið vakið upp umræðu í breskum stjórnmálum, en innan við 100 dagar eru í kosningar í Bretlandi. Flokkarnir saka hver annan um ábyrgð á málinu.
Búið er að boða til sérstakrar umræðu um málið í neðri deild breska þingsins klukkan 15:30 í dag. Þá verður málið rætt á fundi endurskoðunarnefndar þingsins síðar í vikunni og munu skattayfirvöld svara fyrir málið á þeim fundi.
„Þetta er mjög alvarlegt mál og ríkisstjórnin þarf að svara alvarlegum spurningum,“ sagði Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins í morgun. Það er einkum tvennt sem stjórnarandstaðan vill ræða. Annars vegar er það Stephen Green, sem var bankastjóri og síðar stjórnarformaður bankans á tímabilinu sem gögnin taka til. Hins vegar hvers vegna ekki hafi verið gengið harðar fram í málinu, þar sem skattayfirvöld hafa haft listann yfir mögulega skattsvikara undir höndum frá árinu 2010.
Stephen Green var bankastjóri og stjórnarformaður HSBC áður en hann varð ráðherra undir David Cameron. Hann neitar að tjá sig.
Green starfaði fyrir HSBC í 28 ár. Hann var bankastjóri árin 2003 til 3006, og stjórnarformaður frá 2006 til 2010. Gögnin sem var lekið til fjölmiðla nú eru frá árunum 2005 til 2007. Green sagði sig frá störfum fyrir bankann til þess að gerast verslunarráðherra í ríkisstjórn David Cameron. Hann starfaði sem ráðherra til ársins 2013 en er nú þingmaður í lávarðadeildinni.
Skipun hans sem ráðherra tók gildi átta mánuðum eftir að skattayfirvöld í Bretlandi fengu afrit af listanum sem nú hefur ratað í fjölmiðla.
Green neitar enn sem komið er að tjá sig um málið.
Margaret Hodge, sem er þingmaður Verkamannaflokksins og formaður endurskoðunarnefndar þingsins, sagði við BBC í morgun að annað hvort hafi Green verið „sofandi við stýrið, eða hann vissi þetta og tók því þátt í vafasömum skattagjörningum. Hvorn veginn sem er þá var hann maðurinn við stjórnvölinn og ég held að hann þurfi að svara mikilvægum spurningum nú.“ Hodge viðurkenndi þó að margt af því sem átti sér stað hjá HSBC hafi gerst á meðan Verkamannaflokkurinn var við völd, en sagði að tímarnir hefðu breyst síðan þá. Hún varpaði einnig fram spurningum um ábyrgð skattayfirvalda.
David Cameron hefur varið ákvörðun sína um að ráða Green sem ráðherra. „Stephen Green var frábær verslunarráðherra, hann stóð sig vel. En ég vil líka bæta því við að engin ríkisstjórn hefur gert meira en þessi til að ráðast gegn skattsvikum og skattaundanskoti.“
Nick Clegg, leiðtogi frjálslyndra demókrata hefur dæminu upp á Verkamannaflokkinn og sagt að lekinn sýni einna helst að Verkamannaflokkurinn hafi leyft bönkunum að starfa án almennilegs ramma og reglna. „Við höfum gert talsvert meira við að taka til í bönkunum en Verkamannaflokkurinn gerði nokkurn tímann.“
Skattayfirvöld í Bretlandi segjast hafa endurheimt 135 milljónir punda í gegnum upplýsingar af listanum. Farið hafi verið skipulega í gegnum öll gögnin og skattar, vextir og sektir hafi verið greiddar af þeim sem földu eignir í Sviss til að komast hjá því að borga skatt. Þetta kemur fram í yfirlýsingu.