Skortur á upplýsingum um hverjir seljendur eru og hvaða eignir verið er að leigja út til ferðamanna í gegnum íbúðaleigusíðuna Airbnb gerir eftirlit skattayfirvalda flókið. Þess vegna hefur ríkisskattstjóri stundað svokallaða „frávikagreiningu“ og skoðað greiðslur erlendis frá inn á innlenda bankareikninga. Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag þar sem rætt var við Sigurð Jensson, forstöðumanns eftirlitssviðs Ríkisskattstjóra.
„Við höfum fylgst vel með þessu. Eins og þetta er sett upp í dag þá er ekki hægt að fá upplýsingar um það hverjir eru seljendur og hvaða eignir er verið að leigja út. Það gerir eftirlit flóknara. Því hefur verið reynt að fara aðrar leiðir í þessu. Gera það með þeim hætti, við höfum skoðað greiðslur erlendis frá inn á bankareikninga. Því er í raun farið í frávikagreiningu hjá gjaldendum og þannig uppgvötað misfellur í skattskilum,“ sagði Sigurður. Hann sagði mál sem varða greiðslur erlendis frá inn á íslenska bankareikninga skipta hundruðum, en gat ekki sagt hversu mörg þeirra tengjast íbúðaleigusíðum.
Yfir 1.800 íbúðir og herbergi í Reykjavík eru skráð á Airbnb.com, sem er vinsælasta íbúðaleigusíðan. Sæmkvæmt núgildandi lögum þurfa íbúðaeigendur að sækja um leyfi til að leigja út íbúðina sína og greiða af starfseminni skatta. Það gera hins vegar fæstir. Í frétt RÚV frá apríl síðastliðnum sagði að hátt í 60 prósent íbúða og herbergja sem leigð eru ferðamönnum í Reykjavík í gegnum vefsíðuna séu leigð án starfsleyfis. Á síðasta þingi lagði iðnaðar- og viðskiptaráðherra fram frumvarp sem heimilaði heimagistingu gegn endurgjaldi á lögheimili fólks í allt að átta vikur á ári. Frumvarpið varð ekki að lögum fyrir þinglok.
Miklar tekjur má hafa af skammtímaútleigu íbúða til ferðamanna í Reykjavík en algengt verð fyrir gistinótt er 150 til 200 dollarar, jafnvirði um 20 til 27 þúsund króna.