Skilafrestur skattframtals einstaklinga er til föstudagsins 20. mars næstkomandi en framlengdur skilafrestur getur lengst varið til 31. mars. Fyrir flesta er auðvelt að ganga frá framtalinu, örfáir smellir á vefsíðu skattsins klára dæmið.
En það er ýmislegt sem hafa ber í huga, til að mynda það sem hægt er að draga frá tekjum. Guðrún Björg Bragadóttir, verkefnastjóri á skatta- og lögfræðisviði KPMG tók saman helstu atriði um frádráttarbæra liði, að beiðni Kjarnans og Stofnunar um fjármálalæsi. Fékkstu ökutækjastyrk, dagpeninga, rannsóknarstyrk eða glímdir þú við veikindi á liðnu ári? Hér að neðan má sjá þau atriði sem gott er að hafa í huga við skattframtalsgerðina. Einnig er að finna ágætar upplýsingar um framtalsskil á vef Ríkisskattstjóra.
Skattframtal einstaklinga 2015
Frádráttur frá tekjum
Ökutækjastyrkur
- Nýjar reglur tóku gildi þann 1. janúar 2014.
- Frá ökutækjastyrk heimilast til frádráttar tiltekinn stiglækkandi kostnaður á hvern ekinn km. í þágu launagreiðanda.
- Ekki er lengur þörf á að halda saman öllum rekstrarkostnaði bifreiða.
- Skilyrði fyrir frádrættinum eru að fyrir liggi skriflegur afnotasamningur á milli launþega og launagreiðanda þar sem aksturserindum er skilmerkilega lýst og að færð hafi verið akstursdagbók.
Dagpeningar
- Á móti fengnum dagpeningum er heimilt að færa til frádráttar ferða- og dvalarkostnað sem launþegi hefur sannanlega greitt vegna ferða á vegum launagreiðanda.
- Ef dagpeningar eru undir 1.000.000 kr. á árinu 2014 þarf ekki að fylla dagpeningablað út, frádrátturinn færist sjálfkrafa á framtalið.
Iðgjöld í lífeyrissjóð
- Hámarksfrádráttur er 8%, 4% vegna skylduiðgjalda í lífeyrissjóð og 2 – 4% vegna iðgjalda í séreignasjóð.
- Frádrátturinn hækkaði úr 6% í 8% frá og með 1. júlí 2014.
- Frádrátturinn er yfirleitt forskráður á framtalið af innsendum launamiða, líkt og launin.
Frádráttur á móti náms-, rannsóknar- og vísindastyrkjum
- Heimilt er að draga frá kostnað á móti náms-, rannsóknar- og vísindastyrkjum.
- Þó er ekki heimilt að draga frá kostnað á móti námsstyrkjum vegna náms sem veitir rétt til að stunda tiltekinn atvinnurekstur og sjálfstæða starfsemi.
- Gjaldfærslu kostnaðar við meistaranám hefur af skattyfirvöldum verið synjað á þeirri forsendu. Kostnaður vegna náms í hinu almenna skólakerfi telst almennt vera einkakostnaður og því ekki frádráttarbær.
- Þá er ekki heimilt að draga frá námsstyrkjum kostnað vegna tómstundanáms.
Frádráttur frá öðrum styrkjum og starfstengdum greiðslum
- Kostnaður vegna líkamsræktar að hámarki fjárhæð styrksins eða mest 50.000 kr. (hækkar í 55.000 kr. á tekjuárinu 2015).
- Frádráttur á móti samgöngugreiðslum að hámarki 84.000 kr.
Lækkun vegna framfærslu ungmenna
- Hægt er að sækja um lækkun á tekjuskattsstofni hafi framteljandi á framfæri sínu ungmenni sem eru við nám eða hafa að öðrum ástæðum það lágar tekjur að þær duga ekki til framfærslu.
- Hér er fyrst og fremst átt við ungmenni á aldrinum 16 – 21 ára sem ekki stunda lánshæft nám.
- Mesta lækkun á tekjuskattsstofni framfæranda við álagningu 2015 er 348.000 kr. miðað við að ungmenni hafi engar tekjur haft.
- Frá þessari fjárhæð dregst 1/3 af tekjum ungennis þannig að þegar tekjur þess eru orðnar 1.044.000 kr. fellur réttur til ívilnunar framfæranda niður.
Lækkun á tekjuskattsstofni við tilteknar aðstæður
Veikindi, slys, ellihrörleiki eða mannslát
- Ef veikindi, slys, ellihrörleiki eða mannslát hafa í för með sér verulega skert gjaldþol. Fyrst og fremst kemur til álita að lækka skattstofna skv. þessum lið ef til hefur fallið óbættur kostnaður sem framteljandi hefur greitt sjálfur og er umfram það sem telst venjulegur kostnaður, t.d. vegna lyfja og læknishjálpar.
- Einnig er heimilt að lækka auðlegðarskattstofn af þessum sömu orsökum.
Veikindi/fötlun barns
- Ef maður hefur á framfæri sínu barn sem haldið er langvinnum sjúkdómi eða fötlun sem hefur í för með sér veruleg óbætt útgjöld umfram venjulegan framfærslukostnað sem
- greidd eru af framfærendum.
Framfærsla vandamanna
- Ef maður hefur foreldra eða aðra vandamenn á framfæri sínu, enda geti þeir ekki sjálfir staðið undir framfærslu sinni.
Eignatjón
- Hafi maður orðið fyrir verulegu eignatjóni sem hann hefur ekki fengið bætt. Með verulegu eignatjóni er hér átt við að fjárhagslegar afleiðingar tjóns sem verður á eignum manns skerði gjaldþol hans. Ívilnun kemur ekki til álita ef mögulegt er að fá tjónið bætt úr hendi annars aðila.
Tapaðar kröfur
- Hafi gjaldþol manns skerst verulega vegna tapa á útistandandi kröfum sem ekki tengjast atvinnurekstri hans. Þetta gildir m.a. um ábyrgðir sem fallið hafa á framteljanda til greiðslu án möguleika til endurkröfu.