Þann 27. janúar sendi skattrannsóknarstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytinu bréf þar sem fram kom að embættið teldi að ekki væri hægt að uppfylla skilyrði ráðuneytisins fyrir kaupum á gögnum úr skattaskjólum. Enn hefur ekkert svar borist skattrannsóknarstjóra, að því er fram kemur í fréttatilkynningu sem Bryndís Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóri sendi frá sér í morgun.
Í tilkynningunni kemur fram að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi upplýst skattrannsóknarstjóra þann 3. desember síðastliðinn að ráðuneytið myndi tryggja þær fjárheimildir sem til þurfi til að afla gagnanna, þó með fyrirvara um eðlilegt samráð og að uppfylltum tveimur skilyrðum; annars vegar að ekki séu gerðir við aðra en þá sem „til þess eru bærir,“ og hins vegar að mögulegt sé að skilyrða greiðslur til seljanda gagnanna við hlutfall af innheimtu.
Eftir að hafa kannað hvort unnt væri að efna nefnd skilyrði ráðuneytisins, sendi Skattrannsóknarstjóri ráðuneytinu bréf þann 27. janúar um að að minnsta kosti annað skilyrði ráðuneytisins yrði ekki uppfyllt. Þar segir jafnframt að skattrannsóknarstjóri telju að ef koma eigi til frekari viðræðna um kaup á þeim gögnum sem um ræði þurfi að koma til endurskoðunar á að minnsta kosti einu nefndu skilyrði og eftir atvikum einnig á hinu skilyrðinu, eftir því hvaða skilning beri að leggja í inntak þess. Skattrannsóknarstjóri mat það sem svo að áður en lengra yrði haldið með málið yrði að lyggja fyrir afstaða ráðuneytisins til þessa.
Þá taldi skattrannsóknarstjóri sömuleiðis nauðsynlegt að áður en gengið verði til mögulegra kaupa á nefndum gögnum, liggi fyrir með hvaða hætti skattayfirvöld komi til með að vinna úr þeim, svo farsælt verði. Samkvæmt fréttatilkynningunni í morgun hefur Skattrannsóknarstjóri bent á mögulegar leiðir í þeim efnum í samtölum við starfsmenn fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur enn ekki svarað bréfi Skattrannsóknarstjóra frá 27. janúar.