Starfshópur sem skipaður var í byrjun desember til að skoða hvort lögfesta eigi svokallaðaðar „griðarreglur“ fyrir þá sem hafa skotið eignum utan skatti kjósi þeir að greiða skattaskuld sína hefur skilað niðurstöðu sinni. Tillögur hópsins eru annars vegar í formi draga að frumvarpi um „griðarreglur“ og hins vegar í formi greinargerðar um lagaheimildir skattayfirvalda til að sporna gegn skattsvikum og ábendingum um úrbætur á þeim lagaheimildum.
Í drögunum að lagafrumvarpi um málið segir að þeir sem kjósi að nýta sér „griðarreglurnar“ geti frá fyrsta júlí næstkomandi og út júní á næsta ári til að skila skattaundanskotum sínum. Geri þeir það munu þeir ekki þurfa að sæta refsingu.
Listi yfir það sem má skoða betur
Í frumvarpsdrögunum stendur: „Hver sá skattaaðili sem á tímabilinu frá 1. júlí 2015 til 30. júní 2016 óskar að eigin frumkvæði eftir leiðréttingu á álögðum opinberum gjöldum vegna óframtalinna tekna eða eigna erlendis skal ekki sæta þeim refsingu sem mælt er fyrir í 109. gr. Ákvæði 1. mgr. á ekki við ef þegar er hafið skattaeftirlit, skattrannsókn eða lögreglurannsókn á framtalsskilum skattaaðilans vegan tekna eða eigna erlendis. Hið sama gildir ef rannsókn er hafin á skattaaðila á grundvelli laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka“.
Í greinargerð hópsins er listað upp það sem hópnum finnst að þurfi að skoða betur í þessum málum hérlendis. Þar segir að nýta eigi niðurstöðu vinnu hjá OECD, breyta lögum vegna innleiðingar á samræmdum upplýsingastaðli OECD, berjast gegn kennitöluflakki, auka samvinnu ríkisskattstjóra og innheimtumanna ríkisins, auka samvinnu vegna bótasvika, auka samvinnu vegna peningaþvættismála sem tengjast skattsvikum og tollkrít.
Hópurinn skipaður í byrjun desember
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra tók ákvörðun um að skipa starfshópinn í byrjun desember 2014. Í hópnum eru Ása Ögmundsdóttir, lögfræðingur, Guðrún Jenný Jónsdóttir lögfræðingur tilnefnd af Skattrannsóknarstjóra, Lísa K. Yoder lögfræðingur tilnefnd af Skattrannsóknarstjóra, og Guðni Ólafsson viðskiptafræðingur.
Samkvæmt tilkynningu sem send var út vegna skipunar hópsins átti hann að skila niðurstöðum eigi síðar en 15. febrúar. Hann fékk síðar viðbótarfrest til dagsins í dag að skila niðurstöðum sínum.