„Skatttekjum af ferðamönnum er misskipt. Ríkissjóður fær næstum allar tekjurnar en sveitarfélög einungis lítinn hluta þó kostnaður þeirra af ferðamönnum sé mikill,“ segir í greiningu Hagfræðideildar Landsbankans um ferðaþjónustuna, sem kom út í dag, og var kynnt á fundi. Enn fremur er því bætt við, að líklegt sé að þessi óhagstæða tekjuskiptin gagnvart sveitarfélögunum dragi úr hvata til þess að byggja upp fleiri áhugaverða staði sem laða ferðamenn að. „Skatttekjur ríkisins af virðisaukaskatti hafa aukist verulega á síðustu árum vegna aukinnar veltu í ferða- þjónustu. Ætla má að virðisaukaskatttekjur á síðasta ári hafi verið um 5,7 milljörðum króna meiri en árið 2009, þegar einungs er horft til gisti- og veitingastaða, ferðaskrifstofa og bílaleiga,“ segir í greiningu Landsbankans.
Í greiningunni kemur fram að Ísland hafi vaxið gríðarlega hratt sem ferðaþjónustuland, að undanförnu, og þá einkum frá því eftir hrun fjármálakerfisins. Hér á landi er fjöldi ferðamanna á hverja 100 íbúa um 304, en til samanburðar er sami fjöldi í Þýskalandi um 40, og í Bretlandi 54. Lönd sem eiga mikið undir ferðaþjónustu, eins og Malta og Króatía, eru með sambærilegan fjölda. Um 272 eru á hverja 100 íbúa í Króatíu en 412 á Möltu.
Hagfræðideildin gerir ráð fyrir því að vöxtur ferðaþjónustunnar verði mikill áfram, og heildar útflutningsverðmæti ferðaþjónustu verði 430 milljarðar króna árið 2017, en í fyrra var það 303.
Sjá má ítarlega skýrslu Hagfræðideildar Landsbankans um ferðaþjónustuna, hér meðfylgjandi. Ferðaþjónusta.