Laun og hlunnindi Árna Péturs Jónssonar, þáverandi forstjóra Skeljungs, voru 72 milljónir króna á síðasta ári, eða sex milljónir króna á mánuði. Auk þess fékk hann 12 milljónir króna í mótframlag í lífeyrissjóð frá félaginu, eða alls eina milljón króna á mánuði. Samanlögð laun, hlunnindi og lífeyrissjóðsgreiðslur til Árna Péturs voru því sjö milljónir króna að meðaltali á mánuði í fyrra.
Árni Pétur tók við starfi forstjóra Skeljungs árið 2019. Hann gegndi starfinu því allt árið 2020. Á því ári voru laun og hlunnindi hans 49 milljónir króna, eða um fjórar milljónir króna á mánuði. Hann fékk auk þess 13 milljónir króna í mótframlag í lífeyrissjóð og því voru heildargreiðslur félagsins til hans tæplega 5,2 milljónir króna á mánuði.
Laun og hlunnindi Árna Péturs hækkuðu því um 47 prósent á síðasta ári en mótframlag í lífeyrissjóð dróst saman um tæplega átta prósent.
Sagði upp fyrr í þessum mánuði
Árni Pétur sagði starfi sínu lausu í byrjun þessa mánaðar. Í tilkynningunni sem hann sendi frá sér sagði Árni Pétur að honum hafi borist tölvupóstur frá fyrrum samstarfskonu hans í öðru fyrirtæki, þar sem hann var yfirmaður hennar fyrir um 17 árum síðan. „Þar greinir hún frá því að í dag upplifi hún samskipti okkar á þessum tíma með þeim hætti að ég hafi gengið yfir ákveðin mörk.“
Ólafur Þór Jóhannesson, sem starfaði áður sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs og sem aðstoðarforstjóri Skeljungs, tók við starfinu af Árna Pétri.
Nær allur hagnaðurinn vegna sölu á P/F Magn
Skeljungur hagnaðist um 6,9 milljarða króna á síðasta ári. Sá hagnaður er nær allur tilkominn vegna sölu á færeyska dótturfélaginu P/F Magn á árinu 2021, en bókfærð áhrif þeirrar sölu á tekjur Skeljungs í fyrra voru 6,7 milljarðar króna. Hluthafar ætla að greiða sér út 350 milljónir króna í arð vegna frammistöðu síðasta árs.
Í fjárfestakynningu sem birt var í gær kom fram að Skeljungur verði héðan í frá fjárfestingafélag og beri nafnið SKEL fjárfestingafélag. Þar með lýkur sögu olíufélagsins Skeljungs á Íslandi, en hún hófst árið 1928.
Strengur, eignarhaldsfélag sem stjórnarformaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson fer fyrir, á 50,1 prósent hlut í félaginu og hefur því tögl og hagldir innan þess. SKEL byrjar tilveru sínu með 12 milljarða króna í handbært fé, um 50 prósent eiginfjárhlutfall og einungis tvo milljarða króna í vaxtaberandi skuldum. Áhersla verður lögð „á þróun á nýjum tækifærum með félögum í eignasafni með langtíma verðmætasköpun að leiðarljósi.“
Stærstu eignir fjárfestingafélagsins eru 100 prósent hlutur í Orkunni, Skeljungi IS og Gallon, 48,5 prósent hlutur í Sp/f Orkufélagi í Færeyjum (sem keypti P/F Magn), 20 prósent hlutur í Kaldalóni og 50 prósent hlutur í félaginu Fasteignaþróun.
Orkan, stærsta eign félagsins, rekur 70 þjónustustöðvar með eldsneyti og átta verslanir, þrjár matvöruverslanir undir hatti Extra og þrjár þægindaverslanir undir hatti 10/11. Þá á Orkan Löður sem rekur 15 þvottastöðvar, Lyfjaval og Lyfsalann sem reka sex apótek, Brauð & Co, Gló, Sbarro og WEDO (Heimkaup, Hópkaup, Bland).