Skeljungur stefnir að því að verða skráður á markað síðla árs 2016. Fyrirtækið gæti því orðið það næsta sem skráð verður á Aðalmarkað Kauphallarinnar á eftir Símanum, en viðskipti með bréf Símans hefjast í vikunni. Þetta er haft eftir Valgeiri Baldurssyni, forstjóra Skeljungs, í Markaðnum í dag.
Í dag er Skeljungur að mestu leyti í eigu lífeyrissjóða og Arion banka. Sá hópur keypti fyrirtækið og færeyska dótturfélag þess P/F Magn árið 2013. SÍA II, sjóður sem rekinn er af sjóðsstýringafélaginu Stefni, dótturfélagi Arion banka, leiddi kaupin. Morgunblaðið sagði á sínum tíma að kaupverðið fyrir Skeljung hafi verið yfir fjórir milljarðar króna. Auk þess hafi 3,95 milljarðar króna verið greiddir fyrir færeyska félagið. Samtals var því greitt um átta milljarðar króna fyrir félögin tvö.
Rekstur Skeljungs hefur gengið mjög vel á undanförnum árum. Fyrirtækið hagnaðist til að mynda um tæpan 1,5 milljarð króna á árunum 2010 og 2011. Í febrúar 2012 endurfjármagnaði Arion banki allar skuldir móðurfélags Skeljungs sem greiddi með því upp allar skuldir sínar við Íslandsbanka. Skeljungur hagnaðist um 571 milljón króna í fyrra og á því ári námu tekjur fyrirtækisins 42,8 milljörðum króna. Eignir samstæðunnar námu 21,4 milljörðum króna, eigið fé rúmum 8 milljörðum og eiginfjárhlutfall var 37,8 prósent.
Kjarninn fjallaði ítarlega um skrautlega sögu Skeljungs í aðdraganda og eftir bankahrun í október 2014. Mánuði síðar, í nóvember 2014, fjallaði Kjarninn um mikinn hagnað fyrrum stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins á viðskiptum sínum með Skeljung og tengd fyrirtækið.