Eldsneytissalinn Skeljungur og Gallon, sem rekur birgðastöðvar fyrir eldsneyti á Íslandi, hafa undirritað viljayfirlýsingu við danska sjóðinn CI Energy Transition Fund I um að skoða möguleika fyrirtækjanna tveggja á að kaupa rafeldsneyti af sjóðnum og dreifa því og selja, meðal annars til íslenskra notenda. Bæði Skeljungur og Gallon eru að öllu leyti í eigu fjárfestingarfélagsins SKEL, sem skráð er á íslenskan hlutabréfamarkað.
CI Energy Transition Fund I er nýr sjóður í eigu Copenhagen Infrastructure Partners (CIP) og er stærsti sjóður heims sem er tileinkaður fjárfestingum í verkefnum tengdu grænu rafeldsneyti. CIP stefnir á framleiðslu rafeldsneytis í Orkugarði Austurlands á Reyðarfirði, en orkugarðurinn er samstarfsvettvangur um nýtingu grænna tækifæra á Austurlandi. Markmið hans er að stuðla að aukinni verðmætasköpun og byggja upp þekkingu á orkuskiptum á svæðinu.
Um er að ræða fyrsta viljayfirlýsingu þessarar gerðar sem gerð hefur verið á Íslandi.
Þórður Guðjónsson, framkvæmdastjóri Skeljungs, segir á sama stað að fyrirtækið sé stolt að gerast samstarfsaðilar CIP í þeirri vegferð sem sjóðurinn sé í.
SKEL fjárfestingafélag hét áður Skeljungur í 93 ár. Nafni og tilgangi félagsins var breytt í byrjun þess. Strengur, eignarhaldsfélag sem stjórnarformaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson fer fyrir, á 50,1 prósent hlut í félaginu og hefur því tögl og hagldir innan þess. SKEL átti 23,5 milljarða króna í eigið fé í lok september síðastliðins.
Í fjárfestakynningu SKEL vegna uppgjörs þriðja ársfjórðungs var sérstaklega fjallað um orkuskipti og innviði. Þar var gengið út frá því að það þyrfti að framleiða 16 TWst af raforku á ári til viðbótar við þær 20 TWst sem nú eru framleiddar hérlendis til að ná fullum orkuskiptum og sagt að heildar umfang fjárfestinga, fjárfestingarþarfar í viðhaldi og eflingu innviða vegna þessa væri yfir 1.000 milljarða króna. „Ljóst að hvert svo sem hlutfallið af þessari fjárfestingu verður, þá er þörfin fyrir þjónustuaðila, orku og tæki umtalsverð og líkleg til að aukast Orkuskipti í stærri tækjum, svo sem vinnuvélum og vöruflutningabifreiðum, verða líklega hraðari en rafbílavæðingin.“