Minnihluti efnahags- og viðskiptanefndar, sem samanstendur af nefndarmönnum Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins, gagnrýnir harðlega þá málsmeðferð sem fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er að fá sökum þess hversu seint það kom fram, en frumvarpið var lagt fram 30. nóvember.
Í sameiginlegu nefndaráliti minnihlutans um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga, svokallaðs bandorms, segir að í stað vandaðrar málsmeðferðar fjalli Alþingi nú um málið undir gríðarlegri tímapressu. „Þessi stutti málsmeðferðartími þýðir að umsagnarfrestur er skemmri en eðlilegt getur talist og dregur úr möguleikum hagaðila og almennings til aðkomu að vinnslu málsins. Þetta þýðir jafnframt að allar breytingartillögur eru unnar á handahlaupum og líkurnar á mistökum margfaldast. Allt ber þetta vott um skeytingarleysi og vanvirðingu gagnvart hlutverki og ábyrgð Alþingis sem löggjafa og handhafa fjárveitingarvalds.“
Markmiðið að framlengja valdasetu
Í álitinu er vitnað í lög um opinber fjármál, þar sem gert er ráð fyrir að þingsályktunartillaga um fjármálaáætlun sé lögð fram að vori og umræður um áætlunargerð og stefnumótun í ríkisfjármálum fari þannig fram á fyrri helmingi árs. „Með því gefist tími á haustþingi til ítarlegrar og vel ígrundaðrar vinnu við fjárlagafrumvarpið sjálft. Ætlunin var að dreifa álaginu af meðferð fjárveitingarvalds Alþingis nokkuð jafnt yfir allt árið og stuðla þannig að vandaðri lagasetningu og ábyrgri stjórn opinberra fjármála.“
Undir álitið skrifað Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar sem er framsögumaður þess, Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, Daði Már Kristófersson, varaþingmaður Viðreisnar sem situr á þingi sökum þess að aðalmaður hans kjördæmis er smitaður af COVID-19, og Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins.