Það vakti athygli fólks á Norðurlandi - og raunar víðar einnig - þegar Ólafur H. Jónsson, talsmaður nokkurra landeigenda í Reykjahlíð í gegnum félagið Landeigendur Reykjahlíðar ehf., hóf gjaldtöku í Námaskarði í Mývatnssveit. Ekki nóg með að það hafi komið öllum í opna skjöldu, þar með talið stjórnvöldum, heldur virtist augljóst að Ólafur og félagar voru í órétti að hafa fé af fólki.
Sýslumaðurinn vaknaði strax, eftir að aðflinnslur bárust, og setti lögbann á gjörninginn. Héraðsdómur hefur fellt sinn dóm, og bíður málið nú Hæstaréttar, en lögbannið var staðfest í héraði.
Ekki var það til þess að auka traust á gjaldtökufólkinu - sem lagði hjólhýsinu við Námaskarð til að auðvelda gjaldtökuna - að talsmaðurinn átti erfitt með að fara með fjármuni, og var úrskurðaður gjaldþrota nokkrum vikum áður en hin ólögmæta gjaldtaka hófst.
Þessi misheppnaða og ólöglega tilraun, í það minnsta sé mið tekið af niðurstöðu sýslumanns og héraðsdóms, til gjaldtöku á vinsælum ferðamannastað, er líklega ástæðan fyrir því að stjórnvöld stíga varlega til jarðar þegar að þessu kemur. Náttúrupassanum var algjörlega hafnað af Alþingi, og heyrir sú hugmynd nú sögunni til.
Stjórnvöld hafa líklega ákveðið að fara bara ósköp einfalda leið, til að efla innviði ferðaþjónustunnar um land allt. Einfaldlega úthluta fjármunum til eyrnamerktra verkefna víða um landið, samtals 850 milljónum. Ekkert hjólhýsi verður nálægt þeim stöðum, þar sem fólk verður innandyra að reyna að hafa fé af fólki ólöglega - í það minnsta sé mið tekið af niðurstöðu Sýslumanns og héraðsdóms.
Uppfært: Hæstiréttur hefur ekki dæmt í málinu, eins og stóð í upphaflegu skrifunum, heldur hefur lögbann sýslumanns aðeins verið staðfest í héraði.