Búist er við því á skiptum á þrotabúi Baugs Group, eins umsvifamesta fyrirtækis Íslandssögunnar sem var tekið til gjaldþrotaskipta í mars 2009, ljúki á næsta ári. Alls var um 320 milljörðum krónum lýst í búið en líklegt þykir að samþykktar kröfur verði um 160 milljarðar króna. Búið á alls um 1,2 milljarða króna og hefur unnið tvö dómsmál sem eiga að skila því um sex milljörðum króna. Frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu í dag.
Þar er rætt við Erlend Gíslason, skiptastjóra þrotabús Baugs, um væntanleg skiptalok. Þar segir Erlendur að endurheimtur gæti orðið tæp fjögur prósent af samþykktum kröfum. Hann ræðir einnig mál sem þrotabúið höfðaði gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrum forstjóra, stjórnarformanns og aðaleiganda Baugs, þar sem það krafði hann um 15 milljarða króna vegna svokallaðrar 1998-fléttu.
Í þeirri fléttu, sem ráðist var í nokkrum mánuðum fyrir bankahrun, var smásölurisinn Hagar seldur út úr Baugi til félagsins 1998 ehf. með 30 milljarða króna láni frá Kaupþingi. Helstu eigendur Baugs og 1998 voru sama fólkið, Jón Ásgeir Jóhannesson og tengdir aðilar. Helmingur söluverðsins var notaður til að kaupa eigin bréf af hluthöfum Baugs Group sem notuðu peninganna til að greiða niður eignin skuldir við Kaupþing. Skiptastjóri Baugs taldi að kaupin hefðu falið í sér gjöf, þar sem 15 milljarðarnir hefðu verið greiddir fyrir bréf sem voru einskis virði. Í dómi Hæstaréttar í máli sem þrotabúið höfðaði gegn Kaupþingi og Banque Havilland (áður Kaupþing Lúxemborg) til að fá viðurkennda kröfu vegna þessa gjörnings og vann, kom skýrt fram að Baugur hafi ekki átt neinn pening til að standa við greiðslu skulda sinna snemma árs 2008. Þar segir til að myndA frá því að í byrjun mars 2008 hafi Kaupþing samið kynningu um stöðu Baugs þar sem sagði m.a. að fjárþörf félagsins sýndi að Baugur „gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar án utanaðkomandi íhlutunar eða inngrips“.
Hæstiréttur horfði líka sérstaklega til tölvupósts sem Jón sendi Hreiðari Má Sigurðssyni, þáverandi forstjóra Kaupþings, 9. júlí 2008 með beiðni um skammtímalán frá bankanum upp á 3,1 milljarð króna til að greiða gjaldfallnar skuldir félagsins. Í dómi Hæstaréttar segir: „Í niðurlagi bréfsins sagði stjórnarformaðurinn að hann hefði unnið hörðum höndum að því að bæta stöðu sóknaraðila meðal annars með sölu á Högum hf. Vonandi fyndu þeir lausn næsta dag en ef ekki „þá þurfum við ekki að spyrja að leikslokum.“
Þrotabú Baugs hafði krafið Jón Ásgeir persónulega um 15 milljarða króna vegna áðurnefndra kaupa á eigin bréfum. Erlendur segir við Viðskiptblaðið að því máli hafi ekki verið fylgt eftir vegna þess að eignir Jóns Ásgeirs voru kyrrsettar bæði á Íslandi og í Bretlandi. Var það kalt mat slitastjórnar að málsóknin myndi ekki skila neinum peningum inn í þrotabúið.