Alþýðusamband Íslands hafnar svokallaðri niðurskurðaraðferð sem beitt var eftir hrunið, enda hafi hún hægt á efnahagsbatanum, ýtt undir ójöfnuð og aukið á fátækt. Þess í stað kallar ASÍ eftir skýrri sýn stjórnmálaflokka á afkomutryggingu, afkomuuppbyggingu og aðgerðum sem gagnast þeim landsvæðum og hópum sem verst hafa orðið úti í COVID kreppunni.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem ASÍ sendi frá sér samhliða áherslum sambandsins vegna komandi Alþingiskosninga. Í tilkynningunni segir að nýs þings bíði það verkefni að byggja upp samfélagið eftir COVID kreppuna.
„Hvernig til tekst við þá uppbyggingu skiptir launafólk og alla Íslendinga miklu máli. Alþýðusamband Íslands birtir í dag ákall til frambjóðenda til Alþingis um að byggja samfélagið upp með sjálfbærni, jöfnuð og jafnrétti að leiðarljósi. Því fylgir mikil ábyrgð að varða veginn frá faraldri til farsældar,“ segir í tilkynningunni.
Sambandið fer fram á að þeir stjórnmálaflokkar sem bjóða fram til Alþingis skýri áform sín í húsnæðismálum. Skortur sé á heildarsýn í málaflokknum. „Verkalýðshreyfingin hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar í húsnæðismálum, en á sama tíma skortir heildarsýn af hálfu stjórnvalda.“
Réttlát hlutdeild í verðmætum rati til launafólks
Þá segir í tilkynningunni að ASÍ muni aldrei fallast á áform um að draga úr framlögum til heilbrigðismála. Heilbrigðiskerfið hafi ekki náð að rétta úr kútnum eftir niðurskurð eftirhrunsáranna. Sambandið styður þá stefnu að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga og „stýra flæðinu úr krananum sem sérfræðilæknar hafa einir aðgang að.“
Kallað er eftir því að réttlát hlutdeild í þeim verðmætum sem skapast við breytingar á vinnumarkaði rati til launafólks, um það snúist hugmyndin um réttlát umskipti. Mikilvægt sé að vinna gegn ójöfnuði að mati samtakanna, en ójöfnuður er gjarnan fylgifiskur kreppa.
„Skipting auðs í heiminum er að verða eins ójöfn og hún varð verst á 19. öld. Mikil misskipting auðs kemur öllu samfélaginu illa. Á Íslandi eiga ríkustu 5% landsmanna um 40% af allri hreinni eign í samfélaginu og nýr auður ratar hlutfallslega mest til hinna ríku. Í sögulegu ljósi ýta kreppur undir ójöfnuð. Þess vegna verður að grípa til aðgerða til að draga úr ójöfnuði og það verður eitt mikilvægasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar og nýkjörins Alþingis. Samfélög jöfnuðar eru sterkustu samfélög í heimi. ASÍ krefst þess að stjórnmálaflokkarnir skýri hvernig þeir ætla að vinna að auknum jöfnuði á Íslandi,“ segir í tilkynningu ASÍ.