Mögulegt er að breska ríkisútvarpið BBC verði í framtíðinni fjármagnað með áskriftargjöldum ofan á afnotagjöldin sem nú eru notuð. Þetta segir John Whittingdale, menningarmálaráðherra Bretlands, við BBC. Hann segir alla möguleika verða skoðaða í umræðunni um framtíð ríkisútvarpsins, en ríkisstjórnin ætlar að ráðast í mikla endurskoðun á stofnuninni.
Hann segir mögulegt að í framtíðinni verði það þannig að hluti stofnunarinnar verði fjármagnaður með skyldugjöldum og hluti verði með áskriftum sem fólk geti þá borgað að mismunandi hlutum þjónustunnar. Þetta sé þó ekki komið annað en á hugmyndastig.
Whittingdale tilkynnti það á fimmtudaginn að ráðist verði í endurskoðun á starfseminni, stærð BBC, hvað stofnunin gerir og hvernig hún er fjármögnuð. Hann sagði þá að hann efaðist um að stofnunin ætti að reyna áfram að vera „allt fyrir alla.“
Margir hafa gagnrýnt áform ríkisstjórnarinnar síðustu daga. Whittingdale hefur sagt að stærð og umfang BBC hafi aukist verulega á síðasta áratug og nú væri rétti tíminn til að skoða „hvort þessi tiltekna breidd þjónustu sé það sem best þjónar þeim sem borga afnotagjöld.“
Whittingdale segir í dag að hann vilji fá sem flestar raddir fram um framtíð stofnunarinnar. Margir myndu segja að stofnunin væri að gera margt það sama og aðrir fjölmiðlar í dagskrárgerð sinni, en að sama skapi ætti dagskrárgerð ríkisfjölmiðilsins að vera öðruvísi.
Hann sagðist hissa á því að endurskoðunin hafi fengið slæmar viðtökur og sagðist elska ríkisútvarpið.
„Ég er mikill aðdáandi BBC. Ég hef sagt það margoft að þegar BBC er upp á sitt besta er það besti fjölmiðill í heiminum, en á tíu ára fresti rennur stofnskrá stofnunarinnar út og þá er rétti tíminn til að skoða það hvað BBC gerir, hvernig hún er fjármögnuð, hvernig henni er stjórnað og skoða hvort breytingar þurfi að gera eða ekki.“