Saksóknarar í Bretlandi hafa nú til skoðunar hvort News International, fjölmiðlasamsteypa Ruberts Murdoch, verður ákærð vegna símhlerana. Lögregla hefur afhent saksóknaraembættinu gögn sem varða News International, sem núna heitir News UK, en rannsókn lögreglunnar hófst árið 2011.
Saksóknaraembættið skoðar hvort hægt sé að dæma samsteypuna til greiðslu bóta vegna málsins. Áður hafa blaðamenn og stjórnendur blaðsins News of the World verið saksóttir vegna ólöglegra símhlerana, en blaðamenn brutust inn í talhólf fjölmargra einstaklinga og öfluðu sér frétta þannig. Andy Coulson var dæmdur en aðrir, þar á meðal Rebekah Brooks, voru sýknaðir. Talið var að fjölmiðlasamsteypan myndi tilkynna fljótlega um endurkomu Brooks.
Lögreglan staðfesti við Guardian í dag að sönnunargögnin í málinu hefðu verið send saksóknaraembættinu þann 23. júlí síðastliðinn. Áður hafði rannsókn verið hætt í Bandaríkjunum.